Stuðningur við krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:43:58 (1982)

2003-11-19 18:43:58# 130. lþ. 31.9 fundur 263. mál: #A stuðningur við krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er ekki bara að miðla okkur af reynslu sem hún hefur sjálf öðlast, heldur hefur hún jafnframt í gegnum víðtæk kynni af konum í þessari aðstöðu kynnst því við hvað er að slást í þessum efnum. Það er alveg ljóst af svari hæstv. ráðherra að við erum með mjög ósveigjanlegt kerfi og mjög ósveigjanlega reglugerð og ég hlýt að minnast á það í þessari umræðu. Ég hef lesið nokkuð um þessi efni, m.a. viðtal við unga konu sem hefur fengið þann sjúkdóm að allt hárið dettur af. Það er varanlegt eftir því sem best er vitað og hún bendir einmitt á þetta með tvær hárkollur. Það er svipað og að bjóða manneskju upp á það að nota tvær flíkur allt árið, bara tvær flíkur, og þá geta allir gert sér grein fyrir hvernig flíkurnar verða. Það verður að taka á þessum málum. Það verður að taka á reglugerðinni og gera hana bæði einstaklingsbundnari og sveigjanlegri.