Lýsing við Gullfoss

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:50:07 (1985)

2003-11-19 18:50:07# 130. lþ. 31.10 fundur 224. mál: #A lýsing við Gullfoss# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta umhverfið við eina fegurstu náttúruperlu landsins, Gullfoss. Aðkoman að fossinum hefur verið stórbætt og góðir göngustígar bæta öryggi þeirra fjölmörgu ferðamanna sem koma til að skoða fossinn. Flestir koma yfir sumartímann en eftir að ferðamannatímabilið lengdist hefur færst í aukana að Gullfoss sé sóttur heim yfir vetrartímann.

Segja má að ferðamenn komi að Gullfossi á öllum árstímum og öllum tímum dags. Í skammdeginu styttist sá tími verulega þar sem gestum gefst færi á að njóta þessarar náttúruperlu sem á sér vart hliðstæðu, ekki bara hér á landi heldur í heiminum.

Í uppsveitum Árnessýslu hefur verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu ferðamannaiðnaðar. Fáir hafa náð eins miklum árangri í þeim efnum á síðustu árum enda eru möguleikarnir miklir þar sem náttúruundur eins og Gullfoss og Geysir eru til staðar. Víða erlendis má sjá á helstu ferðamannastöðum að náttúruperlur eru upplýstar eftir að dimma tekur til að laða frekar að ferðamenn og lengja þann tíma sem njóta má útsýnis.

Á síðustu árum hafa menn rætt möguleikana á að koma fyrir lýsingu við Gullfoss og hefur ferðamálaráð tekið þeirri hugmynd frekar jákvætt. Um yrði að ræða lýsingu sex mánuði ársins, frá 1. október til 1. apríl. Töluverð vinna hefur verið lögð í að skoða með hvaða hætti þetta yrði best gert. Hér er um mjög áhugavert framtak að ræða sem styrkja mundi ferðamannaiðnaðinn í uppsveitum Árnessýslu verulega og gefa fleirum færi á að njóta þessarar frábæru náttúruperlu á annan hátt en nú er. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur komið til álita að lýsa Gullfoss upp með ljóskösturum og ef svo er, hver er afstaða ráðherra og viðkomandi stofnunar til hugmyndarinnar?