Miskabætur til þolenda afbrota

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:21:47 (1999)

2003-11-19 19:21:47# 130. lþ. 31.13 fundur 267. mál: #A miskabætur til þolenda afbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:21]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Árið 1995 voru samþykkt lög sem þóttu mikil réttarbót fyrir fórnarlömb ofbeldis, þeim sem höfðu orðið fyrir líkamsárásum eða verið beittir kynferðislegu ofbeldi. Að flestra mati hafa lögin reynst vel og hafa þeir sem orðið hafa fyrir ofbeldi fengið bætur sem annars hefðu ekki verið, t.d. í þeim tilvikum þegar ofbeldismaðurinn finnst ekki, eða hefur ekki fjárhagslega getu til þess að greiða þær fjárhæðir sem dæmdar eru fórnarlambinu. Lögin tóku gildi 1. júlí 1996. Umsókn um greiðslur bóta úr ríkissjóði hefur fjölgað nokkuð síðan þá. Skráð mál af þessum toga eru á þessu ári tæplega 200, en voru árið 1998 um 104.

Dómstólar hafa í auknum mæli verið að dæma hærri bætur en áður var gert, t.d. í kynferðisafbrotamálum og taka þá e.t.v. meira tillit til sálrænna erfiðleika sem fórnarlamb ofbeldis þarf að þola. En þó dómarar taki meira tillit til þess og dæmi hærri bætur en áður, er ekki þar með sagt að fórnarlömbin fái þær.

Samkvæmt þeim lögum sem tóku gildi 1996 átti ríkið að ábyrgjast miskabætur allt að 1 millj. kr. vísitölutengt. En áður en ákvæði þessa efnis tók gildi var því frestað í sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og upphæðinni breytt þannig að í stað 1 millj. kr. ábyrgist ríkið miskabætur allt að 600.000 kr. og vísitölutengingin var afnumin. Þessi skerðing átti aðeins að gilda í stuttan tíma ef marka má álit allshn. um frv. þar sem fjallað var um skerðingarnar.

Samf. hefur undir forustu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur hvað eftir annað flutt hér á Alþingi frv. þess efnis að skerðingin verði afnumin og bætur greiddar í samræmi við þau lög sem samþykkt voru 1996 og hafa ekki að fullu tekið gildi vegna árlegrar skerðingar. Umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, telur í skýrslu sinni fyrir árið 2002 mjög mikilvægt að fella úr gildi þessa skerðingu þar sem hún bitni harðast á börnum sem hafa verið þolendur ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis.

Í bréfi umboðsmanns barna til dómsmrh. frá 23. október 2002 segir m.a. með leyfi forseta:

,,Börn sem fórnarlömb alvarlegs kynferðisofbeldis eru meðal þeirra sem dæmdar eru einnar hæstu miskabætur í Hæstarétti Íslands. Það blandast því engum hugur um að sú ákvörðun Alþingis að ekki skuli greiða hærri bætur en 600.000 kr. úr ríkissjóði bitnar af fullum þunga á þeim sem síst skyldi, ungum fórnarlömbum alvarlegs kynferðisofbeldis.``

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvenær er fyrirhugað að ákvæði laga sem tóku gildi 1996 um ábyrgð ríkissjóðs á miskabótum til þolenda afbrota komi að fullu til framkvæmda?

2. Hversu háar greiðslur hafa verið inntar af hendi til þolenda afbrota?

3. Hversu margir hafa fengið þá hámarksgreiðslu sem nú er í gildi?