Miskabætur til þolenda afbrota

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:24:50 (2000)

2003-11-19 19:24:50# 130. lþ. 31.13 fundur 267. mál: #A miskabætur til þolenda afbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: Hvenær er fyrirhugað að ákvæði laga sem tóku gildi 1996 um ábyrgð ríkissjóðs á miskabótum til þolenda afbrota komi að fullu til framkvæmda?

Ég lít nú þannig á, herra forseti, að lögin hafi komist að fullu til framkvæmda hinn 1. júlí 1996, því þá komu öll ákvæði laganna til framkvæmda. Hins vegar er þetta eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi með tölurnar sem voru hér á ferðinni 1995 og 1996, það var endanlega ákveðið með lögunum sem tóku gildi 1. júlí 1996 að þessar bætur skyldu verða að hámarki 600.000 kr. Lögin tóku þá að fullu gildi og hafa komið til framkvæmda.

Í öðru lagi er spurt: Hversu háar greiðslur hafa verið inntar af hendi til þolenda afbrota?

Þegar litið er á tölur sem við höfum fengið frá Ríkisendurskoðun, kemur í ljós að heildargreiðslur til þolenda afbrota á árabilinu frá 1996--2002 eru alls 235 millj. 190 þús. kr. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda hafa þessar greiðslur farið stigvaxandi síðustu ár. Má benda á að árið 1996 námu heildargreiðslur 14,9 millj. kr., en á síðasta ári námu heildargreiðslurnar 49 millj. kr. Þá má benda á að rekstrarkostnaður vegna þessara laga nemur á sama árabili 20,6 millj. kr.

Í þriðja lagi er spurt: Hversu margir hafa fengið þá hámarksgreiðslu sem nú er í gildi?

Alls hafa 32 einstaklingar til dagsins í dag fengið hámarksmiskabætur samkvæmt c-lið 2. mgr. 7. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Í þremur tilvikum lá ekki fyrir dómur þar sem gerandi var óþekktur. Í sex tilvikum var fjárhæð bóta sú sama og ákveðin var í dómi. En í 23 tilvikum voru miskabætur ákvarðaðar hærri í dómi en greiddar voru út á grundvelli laganna.