Afdrif hælisleitenda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:30:09 (2003)

2003-11-19 19:30:09# 130. lþ. 31.14 fundur 316. mál: #A afdrif hælisleitenda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁI
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:30]

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Í ársbyrjun árið 2003 voru 20 milljónir manna á skrá Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, svipaður fjöldi og árinu áður, einn af hverjum 300 jarðarbúum. Inni í þessari tölu eru þó ekki 4 milljónir Palestínumanna sem búa í flóttamannabúðum í eigin landi. Þegar menn eru knúnir til að flýja heimaland sitt vegna ofsókna eða stríðs og sækja um landvist í öðru landi, þá sækja þeir um hæli, þ.e. rétt til að fá viðurkenningu sem flóttamenn og öðlast þá lagalegu vernd og aðstoð sem slíkri stöðu fylgir í samræmi við alþjóðasamning um flóttamenn.

Íslendingar hafa á tæpum 50 árum tekið við samtals 422 flóttamönnum, en alltaf í sérvöldum hópum, en þetta þýðir að jafnaði um níu manns á ári. Það er augljóst að í þeim efnum getum við gert svo miklu betur.

En það hefur oft verið gagnrýnt og mörgum finnst það miskunnarlaust þegar hælisleitendum er vísað frá Íslandi, jafnvel fjölskyldum með börn sem búin eru að vera lengi á þvælingi um heiminn eins og dæmin sanna. Þessi gagnrýni byggir á því að sárafá ef nokkur dæmi eru þess að Íslendingar hafi veitt flóttamönnum hæli hér á landi og hafa á stundum spunnist langvinnar og heitar deilur um þau efni.

Hins vegar var lengst af nokkrum hópi veitt dvalarleyfi hér af mannúðarástæðum. En upp á síðkastið hafa því miður frekar borist fregnir af brottvísunum hælisleitenda en af því að þeim hafi verið veitt dvalarleyfi. Íslensk stjórnvöld hafa í þeim efnum vísað í Dyflinnarsamkomulagið og norræna vegabréfseftirlitssamninginn og vísað hælisleitendum umsvifalaust til síðasta áfangastaðar. Menn spyrja sig hvort brottvísun, svokölluð endurviðtaka, af þessu tagi sé að verða algild regla hjá núverandi ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Þegar umræða um skýrslu hæstv. utanrrh. fór fram í síðustu viku, var hér nefnt mál ungra hjóna frá Afganistan og Úsbekistan sem óskuðu hælis hér á landi í mars sl. Þeirra mál hefur nú leyst af sjálfu sér, því þeim hefur nú fæðst hér sonur og skv. 21. gr. laga um útlendinga, með leyfi forseta, segir: ,,Óheimilt er að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan.`` Það er óskandi að við getum öll boðið þennan nýja Íslending velkominn í heiminn.

En ég hef leyft mér að leggja svohljóðandi spurningar um afdrif hælisleitenda fyrir hæstv. dómsmrh.:

Hve margir hafa sótt um pólitískt hæli hér á landi á ári 1998--2003 og hver urðu afdrif þessara umsókna?

Hve mörgum hefur verið veitt hæli hér á landi á fyrrgreindu tímabili?

Hversu mörg börn yngri en 16 ára hafa verið meðal hælisleitenda þetta tímabil og hver urðu afdrif umsókna þeirra?

Hefur ráðherra markað stefnu í afgreiðslu umsókna hælisleitenda? Ef svo er, hver er hún?