Afdrif hælisleitenda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:33:18 (2004)

2003-11-19 19:33:18# 130. lþ. 31.14 fundur 316. mál: #A afdrif hælisleitenda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er hve margir hafi sótt um pólitískt hæli hér á landi á ári 1998--2003 og hver hafi orðið afdrif þessara umsókna?

Árið 1998 komu fram 24 umsóknir um hæli, þar af tvö börn yngri en 16 ára, 13 fengu dvalarleyfi, þar með talin börnin tvö, tveir drógu umsókn til baka, en níu var synjað.

Árið 1999 voru umsóknir einnig 24. Ekkert barn var þar á meðal. Einum umsækjanda var veitt hæli hér á landi, níu fengu dvalarleyfi, átta drógu umsóknir sínar til baka, en sjö var synjað.

Árið 2000 komu 25 umsóknir um hæli, þar af tvö börn. Fjórir fengu dvalarleyfi þar með talin börnin tvö, fjórir drógu umsókn sína til baka, en 17 var synjað.

Árið 2001 komu fram 53 umsóknir, þar af 12 börn. 35 drógu umsókn til baka eða voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þar með talin sex börn. Átta fengu dvalarleyfi, þar með talin þrjú börn og 10 var synjað, þar með talin þrjú börn.

Árið 2002 sóttu 117 um hæli hér á landi, þar af 25 börn. Fimm fengu dvalarleyfi, þar á meðal tvö börn. 36 umsækjendur voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þar með talin átta börn, 61 dró umsókn sína til baka, þar með talin 13 börn og 15 umsækjendum var synjað, þar með talin tvö börn.

Árið 2003, frá ársbyrjun til 18. nóvember sl., hefur 71 sótt um hæli hér á landi, þar af níu börn. 20 hafa verið fluttir til fyrra umsóknarríkis, þar með talin sex börn. 23 hafa dregið umsóknir sínar um hæli til baka og 21 hefur verið synjað, þar með talin þrjú börn. Sjö málum er ólokið.

Svo sem fram er komið hefur einum umsækjanda verið veitt hæli á því tímabili sem er til umræðu, en hann kom til landsins á árinu 1999. Frá því tímabili sem fyrirspurnin lýtur að hafa orðið gagngerar breytingar í þessum málaflokki í löggjöf og með samningum við önnur ríki. Með þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu í mars 2001 varð aðgengi að landinu auðveldara og varð þegar mikil aukning á umsóknum um hæli, sem urðu á árinu 2002 117 talsins. Þá gerðist Ísland í janúar 2001 aðili að svonefndum Dyflinnarsamningi, en hann fjallar um hvernig ákveða skuli hvaða ríki beri að fjalla um hælisumsókn. Á grundvelli þess samnings hafa allmargir umsækjendur verið fluttir til fyrra umsóknarríkis sem fjalla ber um umsóknir þeirra.

Svo sem kunnugt er tók ný löggjöf um útlendinga gildi í ársbyrjun 2003. En á grundvelli hennar hefur afgreiðsla umsókna um hæli orðið mun skilvirkari og þurfa umsækjendur almennt ekki að bíða lengi niðurstöðu í málum sínum. Ný úrræði, flýtimeðferð þegar augljóst er að ekki ber að fjalla um umsókn hér á landi eða augljóst er að umsækjandi fellur ekki undir skilyrði flóttamannasamningsins var fyrst beitt á árinu 2003. Almennt er einkennandi fyrir þann hóp sem sótt hefur um hæli hér á landi að umsækjendur hafa áður reynt fyrir sér í öðrum Evrópuríkjum og ýmist ekki beðið þar eftir niðurstöðu eða verið synjað þar um hæli. Þá hefur í flestum tilvikum reynst vera um að ræða einstaklinga sem leita betri lífskjara en völ er á heima fyrir, en ekki fólk sem er á flótta undan ofsóknum eða stríðsátökum í heimaríki sínu, en það er um síðarnefnda hópinn sem þeir alþjóðasamningar sem unnið er eftir, fjalla. Þau börn sem leitað hafa hælis hér hafa öll verið í fylgd með foreldrum sínum og niðurstaða í málum þeirra ráðist af niðurstöðu í málum foreldranna.

Herra forseti. Að því er varðar fjórðu spurningu fyrirspyrjanda um stefnu ráðherra í afgreiðslu umsókna hælisleitenda er því til að svara að það er ekki hlutverk ráðherra að marka þá stefnu. Hún hefur þegar verið mörkuð í nýju útlendingalöggjöfinni og dóms- og kirkjumrn. framkvæmir hana í þeim úrskurðum sem það kveður upp á þessu sviði. Þar kemur m.a. fram að miða ber við efnisreglur flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951, með síðari viðauka, um mat á því hvort umsækjandi um hæli teljist vera flóttamaður. Sé svo á hann rétt á hæli nema tilteknar undantekningar eigi við, svo sem á grundvelli Dyflinnarsamningsins eða norræna vegabréfasamningsins. Teljist umsækjandi ekki vera flóttamaður í skilningi flóttamannasamningsins, ber stjórnvöldum að taka það til skoðunar að eigin frumkvæði hvort veita beri umsækjanda dvalarleyfi af mannúðarástæðum eins og framangreindar tölur bera með sér. Hefur það alloft verið gert.

Lögunum til fyllingar er ítarleg reglugerð, sett af dómsmrh. í janúar á þessu ári, sem m.a. hefur að geyma ítarlegar reglur um málsmeðferð vegna hælisumsókna. Hinar nýju málsmeðferðarreglur eru mikil réttarbót fyrir umsækjendur og tryggja þeim m.a. auk þýðingarþjónustu ókeypis réttaraðstoð við málsmeðferðina, bæði á frumstigi og við kærumeðferð.