Reiðhöllin á Blönduósi

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:44:01 (2008)

2003-11-19 19:44:01# 130. lþ. 31.15 fundur 270. mál: #A reiðhöllin á Blönduósi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Á Blönduósi er reiðhöll sem reist var að frumkvæði einstaklings, en síðan var stofnað einkahlutafélag um reksturinn. Að því koma auk upphafsmanns félög hestamanna og hrossaræktenda á svæðinu, sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu og einstaklingar. Á vígsluhátíð reiðhallarinnar þann 11. mars árið 2000 var flutt kveðja frá Guðna Ágústssyni hæstv. landbrh. og skildu viðstaddir gestir, um 300 manns, orðsendinguna svo að vænta mætti opinbers stuðnings við verkefnið. Þegar endanlegur byggingarkostnaður lá fyrir og eignarhald formlega frágengið, var send umsókn um stuðning til ráðherra og henni fylgt eftir með heimsókn. Ráðherrann skoðaði jafnframt hina nýju reiðhöll sumarið 2001. Styrkumsókn var hafnað en Blönduósingum bent á að leita liðsinnis Byggðastofnunar. Umsóknum til Byggðastofnunar hefur ítrekað verið hafnað og sömu sögu er að segja um endurnýjað erindi til landbrh. Þrívegis hefur verið sent erindi til fjárln. en án árangurs.

Í aðdraganda kosninga síðasta vor færði landbrh. forsvarsmönnum reiðhallarinnar þær góðu fréttir að frágengið væri við Byggðastofnun að styrkur kæmi til þeirra, aðeins þyrfti að senda erindi. Það virtist koma ráðherranum í opna skjöldu að stuðningur væri ekki þegar í höfn. Styrkur frá Byggðastofnun er hins vegar ekki kominn enn, heldur afsvar við erindinu.

Forsvarsmenn reiðhallarinnar eru, eins og að líkum lætur, orðnir furðu lostnir á þeim tvöföldu skilaboðum sem þeir fá æ ofan í æ.

Nú kann einhvern að undra þvílíka þrákelkni aðstandendur reiðhallarinnar sýna með síendurteknum styrkumsóknum og spyrja sig hvort þeir skilji ekki orðið nei. Sú er ekki raunin, heldur er skýringin á þessari framhaldssögu og þeirri miklu vinnu sem þeir hafa lagt í þessar fjölmörgu umsóknir, vandaðan undirbúning gagna og heimsóknir til ráðherra með tilheyrandi ferðalögum sú að stöðugt er gefinn ádráttur um að styrks sé að vænta. Þeim er bent á að sækja um aftur og aftur og á nýja og nýja staði. Þess vegna og vegna þess að þörf er á stuðningi til að þetta ágæta framtak, Reiðhöllin á Blönduósi, verði rekið á traustum grunni, er spurt hvort hrammur hæstv. landbrh. sé ekki nógu þungur á vogarskálina Blönduósmegin til þess að styrkveitingar sé loksins að vænta á borði en ekki í orði.