Reiðhöllin á Blönduósi

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:54:44 (2012)

2003-11-19 19:54:44# 130. lþ. 31.15 fundur 270. mál: #A reiðhöllin á Blönduósi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það geta ekki verið hv. þm. í sjálfu sér nein vonbrigði. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt Blönduósingunum og ég er náttúrlega ekki frá því að þeir hafi þegar notað sér þann stuðning sem var í gegnum Framleiðnisjóð, ég hef ekki aflað mér upplýsinga um það. En ég hef ekki bent þeim á aðrar leiðir öðrum fremur og hrammur minn vegur ekkert í þessu. Allir þeir peningar sem ég hef til ráðstöfunar sem landbrh. koma í gegnum þingið. Ég hef ekki aðra peninga og það hafa engir peningar í gegnum Alþingi verið skammtaðir til reiðhalla, og ég er ekkert viss um að ríkið ætli sér að koma inn í það.

Auðvitað verða duglegir athafnamenn sem byggja reiðhallir að gera sér grein fyrir því að þeir byggja þær og fjármagna og verða þá að leita á hlutabréfamarkað með það.

En ég hef aldrei gefið Blönduósingum önnur fyrirheit en þau, þ.e. í gegnum Framleiðnisjóð og síðan gæti það gerst í gegnum Byggðastofnun sem hér hefur verið upplýst. Að rekja hér einhverjar kveðjur frá mér sem ég hafi sent og að það hafi verið jafngildi peninga, það er auðvitað bæði ómaklegt og rangt að hafa slíkar yfirlýsingar hér uppi við. Ég auðvitað sendi á slíkum stundum fallegar kveðjur til þeirra athafnamanna sem eru að leggja peninga sína í hestamennskuna sem hefur verið að gera mikið gagn í landinu því að ég er klár á því að þessar stóru reiðhallir þurfa að vera nokkrar til í landinu til sýningahalds og sölumennsku. En svo eru auðvitað litlar reiðhallir heima á hrossabúgörðunum sjálfum sem Framleiðnisjóður hefur aftur komið að.

En ég hef aldrei gert annað en að segja mönnum satt frá minni hálfu, að ég hef enga peninga í mínum höndum til að rétta þeim við reiðhallirnar. Það er aðeins þessi leið, Framleiðnisjóðurinn, í gegnum félagasamtök hrossabændanna á því svæði. (Forseti hringir.) Og ég hygg nú, hæstv. forseti, að Blönduósingarnir hafi nýtt sér það. En hafi þeir ekki gert það þá er sjálfsagður hlutur að fara yfir það. En ég vil mótmæla því að hér séu sagðar slíkar sögur um einhver fyrirheit og loforð sem ég hef aldrei gefið. (Forseti hringir.) Ég þekki nokkuð vel hvað ég segi og hvar.