Skuldajöfnun skattskulda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:57:27 (2013)

2003-11-19 19:57:27# 130. lþ. 31.16 fundur 308. mál: #A skuldajöfnun skattskulda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Þess eru dæmi að framfærendur barna standi frammi fyrir því eftir skilnað að hinn aðilinn hefur stofnað til skattskulda sem skuldajafnað er við barnabæturnar. Það er staðreynd að börnin búa oftast hjá móður eftir skilnað og hún þarf gjarnan mjög á barnabótunum að halda við framfærsluna.

Hætta er á slíkri skuldajöfnun t.d. þegar skilnaður hefur tekið langan tíma og sá aðili sem hefur flust að heiman stofnar til skuldanna eftir sambúðarslitin.

Annað dæmi sem ég þekki mjög vel og hef reyndar lent í að hjálpa með gagnvart stjórnvöldum er að eftir sambúðarslit var söluágóði sem maki fékk við að selja iðnaðarhúsnæði notaður í að greiða óreiðuskuldir en skattskuldirnar saltaðar og voru síðan skuldajafnaðar við barnabætur þar sem móðir barnanna var öryrki og hafði mjög litlar tekjur og réð alls ekki við dæmið.

Því miður er það oft þannig að sá aðili sem á sök á skuldunum verður oft í kjölfarið lögheimilislaus þannig að ekki er hægt að ná til hans og um það eru fjölmörg dæmi þegar skuldir og ekki síst miklar skuldir eru í spilunum.

Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að hægt er að breyta lögum þannig að heimild sé til þess að taka á slíkum málum en ég hef talið að hægt sé að gera breytingar á reglugerð svo að hægt sé að koma til móts við framfæranda í slíkri stöðu.

Þess vegna ber ég fram fsp. til fjmrh. um hvort ráðherra hafi lagaheimild til að breyta reglugerð um greiðslu barnabóta þannig að tryggja megi að barnabætur séu ekki skuldajafnaðar móti skuldum fyrrverandi maka.

Einnig spyr ég ráðherra hvort hann hyggist leggja til breytingar svo að afstýra megi fjárhagserfiðleikum sem framfærandi barns getur lent í þegar skilnaður dregst á langinn og maki stofnar til skulda sem síðan er skuldajafnað við barnabæturnar.