Skuldajöfnun skattskulda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 20:00:25 (2014)

2003-11-19 20:00:25# 130. lþ. 31.16 fundur 308. mál: #A skuldajöfnun skattskulda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[20:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Spurt er hvort fjmrh. hafi lagaheimild til að breyta reglugerð um greiðslu barnabóta með tilteknum hætti. Svarið við því er að í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003, eru í 68. gr. A. ákveðin lagafyrirmæli um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Barnabætur skulu ákveðnar við álagningu, sbr. X. kafla. Nánari reglur, m.a. um fyrirframgreiðslu og útborgun barnabóta, innheimtu ofgreiddra barnabóta, þar með taldar ofgreiddar barnabætur erlendis, og skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerð.``

Með öðrum orðum: Sú ábyrgð er lögð á fjmrh. að gefa út reglugerð á grundvelli þessara lagafyrirmæla um þessi atriði. Þar af leiðandi getur ráðherra að sjálfsögðu breytt þessari reglugerð svo fremi að hún rúmist innan laganna að öðru leyti.

Reglugerðin sem gefin hefur verið út um þetta efni er nr. 63/1999, en í henni segir m.a. í 7. gr., með leyfi forseta:

,,Barnabætur greiðast til framfæranda barns að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregnar fyrirframgreiddar barnabætur og ofgreiddar barnabætur, vangreiddir skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga, ofgreiddar húsaleigubætur og vangreidd meðlög til Innheimtustofnunar sveitarfélaga ...`` --- í þeirri röð sem síðan er tilgreind, þ.e. í þeirri forgangsröð sem ráð er fyrir gert. Síðan eru taldir 14 liðir sem geta komið til frádráttar þegar um er að ræða skuldajöfnun barnabóta.

Í 116. gr. tekjuskattslaganna sem ég vitnaði til áðan kemur hins vegar skýrt fram að hjón í samvistum bera óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna fyrir sig um greiðslu á sköttum þeirra beggja. Þar segir að auki, með leyfi forseta:

,,Rétt er því hjóna, er skattgreiðslur annast, að krefjast endurgreiðslu af hinu hjóna á þeim hluta skatts er það hefur greitt umfram það sem að réttum hlutföllum kemur í þess hlut miðað við tekjur og eign hvors hjóna.``

Þetta er sem sagt ein af lögfylgjum hjúskapar, eitt af því sem fylgir því að ganga í hjúskap, að hjón bera óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hvors annars. Sama gildir um samskattað sambúðarfólk og einstaklinga í staðfestri samvist.

Þar sem um er að ræða svið sem er einkaréttarlegs eðlis er nauðsynlegt --- ég vil leggja sérstaklega áherslu á það í svari mínu --- að fólk geri sérstakar ráðstafanir við slit á samvistum vegna þessara afdráttarlausu ákvæða, þannig að barnabótum sé ekki skuldajafnað upp í skattaskuldir hins aðilans. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir hjón að kveða skýrt á um greiðslu og ábyrgð á skattskuldum í sínum skilnaðarsamningi, sem er réttur vettvangur fyrir slíkt. Það er ekki ríkisvaldsins að setja nánari reglur um skuldajöfnun skattskulda þegar skilnaður dregst á langinn hjá aðilum.

Ég vil vegna þessarar fyrirspurnar taka undir það sem kom fram í máli fyrirspyrjanda, að oft getur verið um verulegan vanda að ræða ef einstaklingar sem hér eiga hlut að máli sýna af sér óafsakanlega framkomu á borð við það sem fyrirspyrjandi lýsti. Ég geri ekki lítið úr vanda þess fólks sem fyrirspyrjandi nefnir en rétti vettvangurinn til að leysa slíkan vanda er að mínum dómi annars staðar en í lögum eða reglugerð um tekjuskatt og eignarskatt. Ég tel ekki skynsamlegt að gera undanþágu eða frávik frá hinum almennu reglum í þessu efni gagnvart þessum tilteknu aðilum. Það mundi kalla á enn frekari vandamál eins og almennt gerist þegar um frávik eða undanþágur er að ræða. Svona mál verður að leysa á einkaréttarlegum grundvelli milli þess fólks sem hlut á að máli í skilnaðarsamningi viðkomandi aðila.