Skuldajöfnun skattskulda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 20:05:36 (2015)

2003-11-19 20:05:36# 130. lþ. 31.16 fundur 308. mál: #A skuldajöfnun skattskulda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[20:05]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Þannig er að þegar þetta gerist hafa greinilega verið gífurlega mikil vandamál í nokkurn tíma. Sérstaklega þegar skilnaður dregst á langinn þannig að annar aðilinn er jafnvel fluttur að heiman þó lögheimilisfangið sé í einhvern tíma á þeim stað sem sambúðin var. Það getur t.d. verið mjög erfitt fyrir konuna, ég tala ekki um ef konan hefur verið heimavinnandi og makinn verið með fjárhags\-ábyrgðina, bókhaldið og oft á tíðum eru jafnvel blekkingar í málinu, að þegar maðurinn er endanlega farinn og skilnaður frágenginn komi þessi mál upp.

Tökum dæmi af manni sem hefur kannski selt eignir og sagt að hann væri að ganga frá skuldunum. Það kemur jafnvel ekki í ljós fyrr en eftir á að um óreiðuskuldir er að ræða og að skatturinn hafi verið skilinn eftir. Síðan ætlar manneskjan að baslast áfram með börnin en þá eru barnabæturnar teknar af henni. Það munar um barnabætur t.d. með þremur börnum.

Eitt er að lögin fjalla gjarnan um fólk þar sem allt er í lagi hjá. Hitt er með hvaða hætti er hægt að taka tillit til þess þegar aðstæður eru með þeim hætti sem ég lýsti og ætla ekki að endurtaka.

Ég er búin að kanna að það er auðvitað hægt með lögum að banna skuldajöfnun barnabóta. Það væri einföld og að mörgu leyti aðlaðandi aðferð. Þá fengju framfærendur peninginn óskiptan og síðan væri það löggjafans að sækja skattgreiðslurnar. Það væri líka hægt að breyta lögum og skerpa á tímamörkum og takmarka heimildina til að skuldajafna með það að markmiði að skýra réttarstöðu maka við skilnað. Best væri að breyta 7. gr. þannig að ráðherra hefði heimild sem hann gæti gripið til þegar ótvírætt er að eðlilegt væri að koma til móts við manneskjuna.