Skuldajöfnun skattskulda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 20:07:55 (2016)

2003-11-19 20:07:55# 130. lþ. 31.16 fundur 308. mál: #A skuldajöfnun skattskulda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[20:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá skil ég mætavel hvert fyrirspyrjandi er að fara með fyrirspurn sinni og þann vanda sem hv. þm. lýsti. Ég tel hins vegar að það sé einfaldara og auðveldara að leysa þetta mál, annaðhvort í skilnaðarsamningi viðkomandi aðila eða, ef það er ekki hægt, á vettvangi félagslegrar aðstoðar frekar en í skattaumhverfinu þar sem verða að vera skýrar reglur og fyrirmæli.

Það er hætt við því, ef fjmrh. yrði fengin heimild til að undanþiggja tiltekna einstaklinga miðað við tilteknar aðstæður þeirri skuldajöfnun sem gert er ráð fyrir í 7. gr. umræddrar reglugerðar, að þá yrði það afskaplega matskennt hverju sinni hverjir fengju slíka undanþágu og hverjir ekki. Þeir sem bæru ábyrgð á undirbúningi slíkrar ákvörðunar væru ekki öfundsverðir af því að setja sig inn í einkahagi fólks þannig að málefnalegt gæti talist og ráðherrann tekið málefnalega ákvörðun.

Hér eru á ferðinni viðkvæm og oft á tíðum erfið mál. Það þekkjum við öll sem höfum verið í stjórnmálum lengi. Við þekkjum öll dæmi um alls kyns persónulega erfiðleika fólks sem til okkar hefur leitað, m.a. fólks sem lendir í erfiðum hjónaskilnaði. En við eigum að reyna að koma þeim málum á vettvang þar sem best og eðlilegast er að leysa þau. Við eigum ekki að ætla okkur þá dul að leysa öll mannleg vandamál eða allt það sem kemur upp í mannlegum samskiptum og er fjárhagslegs eðlis innan ramma skattalöggjafarinnar.