Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:23:17 (2029)

2003-11-25 15:23:17# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson, 7. þm. Norðaust., kom í ræðu sinni inn á atriði sem hann spurðist fyrir um beinlínis. Er þá fyrst að nefna sérkennslu. Ég reikna með að hv. þm. sé þar að ræða um fjárlögin en ekki fjáraukalögin. Þar er um það að ræða að fjármunir hafa verið færðir á skólana, sérstaklega til þeirra sem hafa haft veruleg sérkennsluverkefni, sem munu vera nærri 200 millj., hygg ég. Ýmiss konar sérkennsluverkefni munu væntanlega líta dagsins ljós og þá er um 100 millj. óráðstafað sem er gert til þess að taka á slíkum tilfallandi verkefnum, svona til að skýra þetta aðeins nánar.

Síðan ber að geta þess að það var tekin ákvörðun um það snemma á til þess að gera stuttum ferli mínum í menntmrn. að taka upp nýtt líkan. Því var ætlað að mæla með réttlátari hætti fjármuni til starfsmennta- og verkmenntagreina sérstaklega. Það var lengi búið að biðja um þessa breytingu en það var hins vegar ljóst að breytingin mundi kosta talsverða fjármuni og sá sem hér stendur setti sér það markmið að klára málið á tveimur árum. Upp kom erfið staða í fyrra þegar ljóst var að ekki væri hægt að koma til móts við þetta að fullu og þá var gripið til svokallaðrar þjöppunar en það er markmið mitt nú að nota 400 millj. af þeim 600 millj. sem hefur verið gerð tillaga um, 600 millj. allt í allt, í að gera upp líkanið að fullu.

Að lokum vil ég geta þess að samningar við háskólana eru á lokastigi, einkum og sér í lagi við Háskóla Íslands. Samningarnir renna út um áramótin þannig að það þarf að vera búið að ganga frá þeim fyrir þann tíma. Þeir lýsa í stórum dráttum samskiptum aðila, þ.e. háskólans og menntmrn.