Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:28:01 (2031)

2003-11-25 15:28:01# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Það líkan sem nú er notað er nokkuð fíngert í sniðum og mælir nákvæmlega marga útgjaldaliði skólanna. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það þurfi að gæta hófs í því að mæla þessa útgjaldaliði svo nákvæmlega. Það gæti líka skapað erfiðleika að vera með of nákvæmt reiknilíkan. En því má heldur ekki gleyma að mælitæki sem þetta sem er þeim mun betra mælitæki sem það endurspeglar nákvæmar raunveruleika skólanna þarf alltaf að vera í endurskoðun. Það var hins vegar kominn tími til að taka ákvörðun um þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið nauðsynlegt að taka ákvörðunina, jafnvel þótt því fylgdu þeir meinbugir að það tæki tvö ár að koma líkaninu í fulla notkun.

Ég vil síðan taka það fram að ég lít svo á að samningaviðræður við Háskóla Íslands hafi gengið mjög vel og góður andi hafi skapast í þeim viðræðum. Þær eru á lokastigi þannig að ég get fullvissað hv. þingmann um að það er stutt í að þeim ljúki.