Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:03:13 (2042)

2003-11-25 17:03:13# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að fara nákvæmlega yfir þetta af því við ræddum þetta í fjárlaganefndinni í fyrra, þ.e. um málefni Byrgisins. Það var að áskorun okkar þá að menn hófu samninga við Byrgið, félmrn. og Byrgið. Það var samið. Það var gerður samningur. Fjárln. Alþingis hefur stundað þau vinnubrögð, og ég, virðulegi forseti, kann ekki önnur vinnubrögð en þau, að séu til samningar, hvort sem það er við einstaklinga, fyrirtæki ríkisins eða stofnanir, þá verði þeir samningar að gilda. Það eru alltaf viðbrögð okkar. Fjölmargir aðilar sem hafa gert samning við ríkið koma til fjárln. á hverju hausti og óska eftir viðbót. Alltaf og undir öllum kringumstæðum hefur því verið hafnað.

Í öðru lagi vil ég minna á það sem ég hef sagt áður að við 3. umr. fjáraukalaga mun koma fram skipting á fjármunum til heilbrigðisstofnana og, virðulegi forseti, þingheimur má alveg trúa því að hæli SÍBS verður þar ekki undanskilið.

Í þriðja lagi tel ég rétt að taka fram að ríkisstjórnin gerði samþykkt um að 1.000 millj. skyldu ganga til öryrkja, 1.000 millj., það var yfirlýsingin. Það er samningurinn. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það stendur í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur engin yfirlýsing verið gerð um neitt annað. 1.000 millj. eru 1.000 millj., ekki 1.200 millj. eða 1.500 millj. (Gripið fram í: Það standa ...) Það er bara ríkisstjórnin ein og Alþingi sem hafa fjárveitingavald. Fjárveitingavaldið er hjá Alþingi. Einstaka ráðherrar hafa þetta ekki á valdi sínu.