Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:33:20 (2048)

2003-11-25 17:33:20# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var einmitt vegna þess að ég tók eftir því að í nál. 1. minni hluta var verið að vitna í Íslandsbanka. Ég var að vekja athygli á þeirri pólitík og þeirri skoðun sem Seðlabankinn hefur haldið fram frá því snemma í vor og aðrar greiningardeildir, ég held að þær séu kallaðar það í viðskiptabönkunum, og svokölluð Hagfræðistofnun Háskólans, hafa verið að taka undir eins og svona eitthvað endurvarp um að það skipti öllu máli að menn geti treyst ríkisfjármálum. Það liggur fyrir að menn hafa getað treyst íslensku ríkisfjármálunum árum saman. Þau hafa verið afgreidd með miklum afgangi, þveröfugt við það sem gerst hefur í flestum öðrum Evrópuríkjum. Það hefur vissulega orðið hækkun á þeim, en það hefur líka orðið hækkun á tekjunum.

Á föstudaginn munum við afgreiða 3. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2003, en við erum að afgreiða þau með 4.700 millj. kr. afgangi. Það er mjög svipuð upphæð og við lögðum af stað með í fyrrahaust. Það er því ekkert að ríkisfjármálunum. Ríkisfjármálin eru ekki á nokkurn hátt að ógna stöðugleika íslensks efnahagslífs. Það er mjög rangt. Það eru allt aðrar staðreyndir sem hafa miklu meira að segja.

Lítum á þetta lagafrumvarp. Hvað er verið að leggja til? Tökum sem dæmi að við ætlum að búa til miklar ríkis\-ábyrgðir út af húsbréfum: 40--70 þús. millj. --- þetta eru stóru tölurnar. Svo eru menn að tala um, eins og Seðlabankinn, að það skipti einhverju máli hvort það séu 4, 6 eða 7 milljarðar afgangs á ríkissjóði. Þetta er mjög villandi. Þess vegna varð ég að vekja athygli á þessari skrýtnu umræðu margra hagfræðinga.

Ég held að vaxtastigið og peningapólitíkin sem Seðlabankinn rekur sé miklu meiri örlagavaldur um það hvernig okkur tekst til heldur en nokkurn tímann hvort það er einhverri krónunni minna í afgang á ríkissjóði.