Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:39:05 (2052)

2003-11-25 17:39:05# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að þakka hv. þm. Grétari Mar fyrir að heiðra mig með því að halda sína jómfrúrræðu hér í andsvari við mig, eða alla vega er þetta í fyrsta skipti sem ég heyri hv. þm. tala. (Gripið fram í.) Ja, er það ekki sjö sinnum sem það þarf?

Auðvitað getum við rætt fram og aftur um einstaka liði í ríkisfjármálunum, hvort rétt áhersla sé lögð á hitt og þetta. Ég held að við komumst seint til botns í því. Það getur vel verið að ég sé sammála honum um það að eftirlitsstofnanir eins og Fiskistofa sé með allt of mikla peninga, það sé algjör óþarfi að hún sé með þessa peninga. En það kallar á miklu, miklu stærri umræðu um það hvað menn eru að gera. Ég held að eftirlitsstofnanir á Íslandi séu yfirleitt mjög vel haldnar. Ég get ekki séð betur af erlendum skýrslum en við höfum t.d. fleiri lögregluþjóna á mann en nokkur önnur þjóð í heimunum. Samt eru allir að kvarta yfir því að það vanti fleiri lögregluþjóna o.s.frv. Ég er ekkert viss um það. Ég er ekkert viss um að með því að fjölga lögregluþjónum séum við á réttri braut, sama hvað sem er að. Ég held að það sé alls ekki víst.

Ríkisfjármál Íslands eru samt í mjög góðu jafnvægi. Í heilan áratug höfum við að jafnaði skilað þó nokkrum jöfnuði, þó nokkrum tekjuafgangi, jafnframt því sem við höfum verið að borga verulega niður okkar skuldir. Þannig að þetta er munurinn á okkur og flestum öðrum Evrópuþjóðum sem hafa á sama tíma verið að auka svo umsvif sín að tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldunum og ár eftir ár safna þær skuldum, skuldum sem eru yfir 3% af landsframleiðslunni eins og ég sagði áðan --- 25 þús. millj. á ári, það er alvarlegt, það er munurinn á íslenskum fjármálum og fjármálum flestra annarra Evrópuríkja. Svo geta menn deilt um einstaka liði kostnaðarins. Ég get alveg tekið undir það.