Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:45:24 (2055)

2003-11-25 17:45:24# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessari umræðu vil ég áfram víkja að orðum hv. þm. í andsvari áðan varðandi samkomulagið við Öryrkjabandalagið þar sem gert var samkomulag 25. mars um sérstaka leiðréttingu fyrir fólk sem verður öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Sá samningur fjallaði um það að taka þar á ákveðnum þáttum sem menn voru sammála um að tekið væri á frá og með 1. janúar árið 2004. Ég skoraði á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að fara um þetta mál hógværum orðum og með þeim orðum að staðið verði við þetta samkomulag refjalaust en draga ekki fram einhverja valdastöðu ríkisstjórnar í þessum efnum. Það er gert samkomulag um ákveðið verkefni og við það á að standa og ég vona að hv. þm. beiti sér fyrir því að við það verkefni verði staðið og með sóma.