Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 18:12:21 (2059)

2003-11-25 18:12:21# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála í fjárlagafrv. að það er gert ráð fyrir gífurlegri eflingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég fer ekki dult með að það er brýn þörf á því og það hef ég og minn flokkur viðurkennt skammlaust. En íbúafjölgunin á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. hefur teygt anga sína til heimabæjar hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, hefur valdið því að menn hafa ekki haft undan. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu verði fjölgað um þrjár. Við erum að tala um fjárlagafrv. næsta árs. Hv. þm. er jafnkunnugt um það og mér hvaða heilsugæslustöðvar það eru, ein er í Kópavogi og tvær eru í Reykjavík. Er ekki enn ein í Hafnarfirði, ég man ekki betur? Þannig er jafnvel sú fjórða sem stendur til að reisa. Þær eru a.m.k. þrjár.

Hv. þm. er líka fullkunnugt um þá gífurlegu uppbyggingu sem gert er ráð fyrir í öldrunarþjónustu, þann fjölda hjúkrunarrýma sem á að bæta við.

Varðandi það að ég hafi talað eins og stjórnarandstæðingur úr þessum ræðustól þá er það fjarri lagi. Hins vegar má með réttu benda hv. þm. á að við værum ekki að leggja þessar háu fjárhæðir í þennan málaflokk ef ekki væri full þörf á því.