Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 18:17:42 (2062)

2003-11-25 18:17:42# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að gera í ræðu minni grein fyrir breytingartillögum Samfylkingarinnar, 1. minni hluta fjárln., við fram komið fjárlagafrv. nú við 2. umr. En vegna þeirra tíðinda sem hér hafa orðið neyðist ég til þess að hefja mál mitt á nokkurri umfjöllun um þær fréttir sem okkur hafa verið færðar í þessari umræðu og standa mér nokkuð nærri. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að vera hér viðstaddur ræðu mína.

Eins og virðulegur forseti veit hef ég úr þessum ræðustól mært hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórnina fyrir það framtak þeirra að gera sérstakan samning við Öryrkjabandalag Íslands um að tvöfalda tekjutryggingu ungra öryrkja. Ég átti ekki von á öðru en að sá samningur héldi og þau orð og þær heitstrengingar sem uppi voru hafðar í tengslum við þann samning af hálfu hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnarflokkanna beggja í aðdraganda síðustu kosninga mundu standa.

Þegar yfirlýsingin var gerð lá fyrir að kostnaður við samninginn yrði rúmur milljarður. Hann var á vettvangi Öryrkjabandalagsins þá í mars sl. talinn liggja á bilinu 1.200--1.400 millj. eftir útfærslum. En þegar ég kom til þings í haust bárust mér þær fréttir að eftir þá skoðun sem verið hefði í starfshópi nú í sumar þá væri sá kostnaður nær 1.500 millj. Við í Samfylkingunni gerðum ekki ráð fyrir neinu öðru en við sæjum þessa tölu í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar, ef ekki nú við 2. umr. þá augljóslega við 3. umr. því að við gerðum ekki ráð fyrir því að við þyrftum að taka það að okkur að efna á Alþingi loforð ríkisstjórnarinnar heldur væri hún einfær um það.

Það er rangt sem fram kemur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að samkomulagið hafi verið um 1 milljarð kr. Það var sagt að kostnaður við verkefnið gæti verið um 1.000 millj. eða rúmlega 1.000 millj. En samkomulagið var um tvöföldun tekjutryggingar. Það hefur komið hér mjög skýrt og greinilega fram hjá hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni að hann hafi ekki heimildir til þess að efna þessi áform og að hinn 1. janúar næstkomandi geti hann ekki efnt heitstrengingar Framsfl. og Sjálfstfl. um að bæta fyrir þá miklu tekjuskerðingu öryrkja sem þessir tveir flokkar beittu sér fyrir á árunum 1995--2003, að þær miklu heitstrengingar geti hann ekki efnt hinn 1. janúar næstkomandi eins og lofað var heldur verði að áfangaskipta efndunum, virðulegur forseti, það verði að áfangaskipta efndum á samkomulaginu við Öryrkjabandalagið. En, virðulegur forseti, það verður að benda hæstv. heilbrrh. á að maður áfangaskiptir ekki æru sinni. Undir þessu samkomulagi eru of miklar heitstrengingar, of miklar yfirlýsingar til þess að menn geti áfangaskipt æru sinni. Það þýðir ekki að áfangaskipta efndum á stærsta kosningaloforði Framsfl. Það þýðir ekki að áfangaskipta þeim efndum, hæstv. heilbrrh. En ég skil það sem svo þegar hæstv. heilbrrh. segir að hann hafi ekki heimildir til að efna þetta samkomulag að hæstv. fjmrh. og hv. þm. Sjálfstfl. og varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, neiti ráðherra Framsfl. um heimildir til að efna þetta samkomulag. Það er þá betra að hæstv. ráðherra staðfesti það hér í ræðustólnum að svo sé ef svo er.

Virðulegur forseti. Við hljótum að benda á að hæstv. heilbrrh. hefur enga heimild til að ganga á bak orða sinna. Ef hann telur sig skorta fjárheimildir til þess að efna samkomulagið við Öryrkjabandalag Íslands í einum áfanga hinn 1. janúar næstkomandi eins og lofað var en ekki að fresta efndunum fram í framtíðina þá verður hann náttúrlega bara innan síns ráðuneytis að finna þá fjármuni.

Virðulegur forseti. Það hefur viljað brenna við þegar hæstv. heilbrrh. á erindi í ræðustólinn í þinginu að hann kyrji hinn gamla söng: ,,Ég er á leiðinni.`` Og þegar hann er inntur eftir efndum á hinum og þessum fyrirheitum svo sem eins og í geðheilbrigðismálunum þá eru þau jafnan á leiðinni. Það er alveg augljóst að hér hefur þingheimur sýnt hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni óvenjumikla biðlund, kannski ekki síst fyrir það að hann er bara, svo að maður segi það bara á íslensku, óvenjulega elskuleg manneskja. En þeirri biðlund, virðulegur forseti, eru takmörk sett. Heitstrengingar um tvöföldun tekjutryggingar ungra öryrkja eru loforð við þá sem ekki má í þessum ræðustóli svíkja né í því fjárlagafrv. sem hér er fram komið. Ég kalla eftir því að frv. það sem hæstv. ráðherra hefur boðað að sé á leiðinni um áfangaskiptar efndir á æru manna komi fram hið fyrsta og ekki síðar en fyrir 3. umr. fjárlaga þannig að menn geti séð hvernig á að áfangaskipta æru hæstv. heilbrrh. fyrst hann fær ekki heimildir til þess frá fjmrh. og væntanlega varaformanni fjárln. til þess að efna orð sín.

Virðulegur forseti. Nú er mér kunnugt um að hæstv. heilbrrh. er tímabundinn vegna annarra skuldbindinga. Ég vildi þess vegna gefa kost á því ef virðulegur forseti leyfir að ráðherra geti verið til andsvara við ræðu mína nú, en ég fengi að halda henni áfram að því loknu, ef forseti telur að á því færi að þingsköpum.

(Forseti (BÁ): Að mati forseta er ekki heimild til slíks heldur verður um það að ræða að hv. þm. ljúki máli sínu og hæstv. heilbrrh. hefur þá færi á að taka til andsvara.)

Þá vil ég, virðulegur forseti, fá að ljúka ræðu minni og gera þá grein fyrir breytingartillögum Samfylkingarinnar við það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. Ég vil því biðja hæstv. heilbrrh. um að hafa biðlund með mér, en það mun taka nokkra stund að gera grein fyrir þeim tillögum.

Þær tillögur sem Samfylkingin leggur fram snúast um að hreyfa til um það bil 7,5 milljörðum í þessu fjárlagafrv. og þegar horft er á umfang fjárlagafrv. þá eru það auðvitað ekki stórar breytingar eða innan við 3%. Þær eru heldur ekki á neinn hátt tæmandi listi yfir þær breytingar sem Samfylkingin vildi sjá á þessu frv. heldur fyrst og fremst táknrænar áherslur Samfylkingarinnar nú við 2. umr. og eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans er enn opið í 3. umr. fyrir breytingartillögur á alla liði frv. Nú kann að vera að við þennan lista bætist nokkuð á milli umræðna, en eins og fram hefur komið í umræðunni hefur mikið skort á að við í fjárln. fengjum fram þær upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu sem óskað hefur verið eftir og það hefur kannski ekki síst valdið þar nokkru um að gera mönnum erfitt um tillögugerðina.

Af þeim tillögum sem hér eru fram settar hygg ég að mest nýmæli felist í heimildarákvæði, en þar leggur Samfylkingin til að veitt verði heimild til þess að selja eignarhluta íslenska ríkisins í Hitaveitu Suðunesja hf. Þar er um að ræða eignarhluta upp á 1.133 millj. 356 þús. að nafnvirði, en ætla má að markaðsvirði hlutarins sem er 15,3% af Hitaveitu Suðurnesja hf. sé ekki undir 1.650 millj. kr. --- það er 15% af eigin fé fyrirtækisins. Það nemur nú um 11,3 milljörðum --- en trúlega nær 2 milljörðum og jafnvel ívið betur. Tillaga okkar í Samfylkingunni er að söluandvirði þessa eignarhluta ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, um það bil 2 milljörðum kr., þ.e. að þeim tekjum verði varið til atvinnuuppbyggingar á Suðunesjum. Samfylkingin leggur þunga áherslu á þau vandkvæði sem eru uppi á Suðurnesjum í atvinnumálum vegna þeirrar vanrækslu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt við að fást við þau verkefni sem á Suðurnesjunum blasa við vegna sífellds, viðvarandi og vaxandi samdráttar á vegum bandaríska hersins á Miðnesheiði. Þar eru veruleg verkefni fyrir okkur til að takast á við. Þess vegna leggur Samfylkingin til að eignarhlutur íslenska ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja verði seldur á næsta ári og tekjum af því varið með þessum hætti til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Að öðru leyti skiptast tillögur okkar fyrst og fremst í tvo hluta. Liðlega helmingurinn lýtur þannig að skattalækkunum upp á um 2,9 milljarða og ætlum við þar að reyna að efna nokkuð fyrirheit Sjálfstfl. og Framsfl. í þeim efnum, en eins og kunnugt er eru skattahækkanir í frv. eins og það liggur fyrir þvert ofan í það sem menn lofuðu fyrir kosningar í maí.

[18:30]

Hinn hlutinn, tæplega helmingur, felst síðan í tillögum um að styrkja nokkrar samfélagsstofnanir á sviði félags- og menntamála og að leggja í bætur til þeirra sem lifa þurfa við bæturnar einvörðungu. Þær tillögur sem lúta að skattalækkunum snúa að því að falla frá 600 millj. kr. hækkun á bensíngjaldi sem lögð er til í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og hér liggur fyrir og hefur hlotið sérstaka umfjöllun í þinginu. Sömuleiðis er lagt til að fallið verði frá 400 millj. kr. hækkun á þungaskatti en það höfum við einnig fjallað ítarlega um í þinginu og það mikla ranglæti sem í þeim skatti er, einkanlega gagnvart landsbyggðinni.

Þá leggjum við til að fallið verði frá 600 millj. kr. skerðingu á vaxtabótum en þá tillögu ríkisstjórnarinnar höfum við gagnrýnt sérstaklega hart vegna þess að sú aðgerð beinist gegn þeim er síst skyldi. Hún beinist að skuldsettu ungu fjölskyldufólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og hefur reiknað ákveðnar forsendur fyrir því að það megi takast áfallalaust. Við teljum að það sé vítavert í raun að raska með þessum hætti forsendum sem unga fólkið í landinu hefur sett sér fyrir húsnæðiskaupum sínum. Ekki nóg með það, við teljum að eins og þessi tillaga er sett fram sé verið að raska forsendum yfirstandandi árs, forsendum ársins 2003, vegna þess að vaxtabætur þær sem greiða á á komandi ári, árinu 2004, eru vaxtabætur vegna vaxta á yfirstandandi ári. Það er hæpið að það standist að með afturvirkum hætti breyti menn forsendum unga fólksins sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, og þess vegna standist málið yfir höfuð vart hina formlegu hlið.

Loks er til að taka lækkun á virðisaukaskatti sem nemur um 1,3 milljörðum kr. en hún er afleidd af þeirri tillögu okkar í Samf. að helminga virðisaukaskattinn á matvöruna. Árlegur kostnaður við það er talinn vera tæplega 4 milljarðar kr. og við gerum ráð fyrir því að það gæti komið til framkvæmda á hausti komanda, þá frá 1. sept. nk., og tekjutap ríkissjóðs yrði í samræmi við það 1.300 millj. kr. Þarna höfum við sem sagt tillögur Samf. um skattalækkanir frá frv. ríkisstjórnarinnar en þær nema nákvæmlega 2,9 milljörðum kr.

Virðulegur forseti verður að fyrirgefa þeim sem hér stendur að ég hef því miður ekki fengið þskj. 427 sem hefur að geyma brtt. Samf. á tölvutæku formi og hef því ekki getað lært fjárlaganúmerin sem fylgja hverjum lið en ég lofa virðulegum forseta að vera búinn að læra öll fjárlaganúmerin utan bókar á næsta haustþingi svo að þetta hendi mig ekki aftur. En þau númer sem ég kann skal ég reyna að hafa yfir.

Þá er komið að þeim liðum sem lúta að því að bæta kjör hinna verst settu. Þar höfum við eins og fyrr greinir ekki gert ráð fyrir því að við þyrftum að uppfylla samning ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalagið en þurfum þá greinilega að huga að því milli 2. og 3. umr. Við höfum hins vegar gert ráð fyrir því að það eigi að hækka bætur til ellilífeyrisþega í samræmi við þróun launavísitölu en ekki í samræmi við þróun verðlags á næsta ári. Við teljum að með því að hækka bætur ellilífeyrisþega aðeins eftir verðlagsþróun en ekki eftir þróun launavísitölu dragist ellilífeyrisþegar smátt og smátt aftur úr öðrum hópum í samfélaginu, og það sé einmitt sá vandi sem við höfum verið að horfast í augu við í lífeyriskerfinu, að langvarandi, hægfara samdráttur í lífeyrisgreiðslum til þessara hópa, með því að láta bætur aðeins fylgja verðlagi en ekki launavísitölu, hafi skapað þar vanda sem sé meiri en boðlegt er. Kostnaður við að láta bætur ellilífeyrisþega fylgja þannig launavísitölu er um 320 millj. kr. og kæmi undir lið 08-204.

Sömu aðgerð leggjum við til hvað varðar örorkulífeyrisþega, þ.e. að örorkubætur þeirra fylgi launavísitölunni en ekki verðlagsþróuninni, og er kostnaður við það 280 millj. kr. á næsta ári og fellur undir sama lið, 08-204.

Þá viljum við horfa sérstaklega á þátt atvinnuleysisbótanna. Þar leggjum við til að fallið verði frá hinum fyrirhugaða sparnaði ríkisstjórnarinnar upp á 100 millj. kr. við það að tekinn verði upp sérstakur þriggja daga biðtími enda er í raun fráleitt, virðulegur forseti, að spara á atvinnulausum í ljósi þess hvernig kjör þeirra hafa þróast á undangengnum árum. Atvinnuleysisbætur í landinu hafa aðeins fylgt verðlagsþróun en ekki launaþróun frá því að þessi ríkisstjórn tók við, og ekki einu sinni það því að sú ríkisstjórn sem nú situr, ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., var svo rausnarleg, ef við getum notað það orð, virðulegur forseti, að afnema desemberuppbótina á atvinnuleysisbæturnar árið 1996 þannig að sennilega hafa þær ekki einu sinni fylgt verðlagi þennan tíma. Við leggjum sem sagt til að fallið verði frá þriggja daga biðtíma og því að spara sérstaklega á atvinnulausum og gerum ráð fyrir að við það falli til kostnaður upp á 100 millj. kr. á næsta ári. Við leggjum sömuleiðis til að ráðist verði í að setja aftur upp desemberuppbótina til að létta atvinnulausum róðurinn í sjálfum jólamánuðinum og kostnaður við það er 100 millj. kr. Sambærilegan stuðning fá lífeyrisþegar sem eru hjá Tryggingastofnun og jafnvel þeir sem eru á neyðaraðstoð Félagsþjónustunnar í Reykjavík fá þó nokkra jólauppbót. Það er óskiljanlegt hvernig Framsfl. og Sjálfstfl. datt í hug að hirða jólauppbótina af þeim hópi sem verst er settur í samfélaginu, atvinnulausum.

Sömuleiðis leggjum við til um atvinnulausa að þar fylgi bæturnar einnig launavísitölunni en ekki verðlagsþróun. Við áætlum að kostnaðurinn við það sé um 200 millj. kr. Við teljum, virðulegur forseti, mikilvægt á þessu kjörtímabili að menn gefi kjörum atvinnulausra sérstaklega gaum því að þeir hafa dregist það mikið aftur úr á undanförnum árum að það er full ástæða til að skoða alvarlega hvort þau löku kjör sem atvinnulausum eru boðin hafi leitt til þess að þeir sækist í auknum mæli eftir örorkumati og varanlegum opinberum fjárstuðningi. Þó að örorkubæturnar séu ekki háar, 93--94 þús. kr. á mánuði, eru þær þó 15--16 þús. kr. hærri en atvinnuleysisbæturnar. Það kann að vera hluti af skýringunni á hinni miklu fjölgun öryrkja á undangengnum árum. Þarna eru samanlagt, virðulegur forseti, um 400 millj. kr. á lið 07-984.

Að síðustu er það liður 08-206, en þar eru hjálpartæki. Þar hefur ríkisstjórnin gert ráð fyrir að skerða bifreiðastyrki til öryrkja um 150 millj. Það er ástæða til að nefna í því sambandi, virðulegur forseti, að á fjáraukalögunum sem hér liggja fyrir er hæstv. ríkisstjórn að fara fram á 18 millj. kr. aukafjárveitingu til að geta endurnýjað ráðherrabílana sína hraðar en ætlað var. Á sama tíma leggja þeir til að skera niður bifreiðastyrki til öryrkja um 150 millj. og breyta reglum þannig að öryrkjar fái ekki að endurnýja bifreiðir á þriggja ára fresti heldur að ég hygg sex ára fresti. Það sýnir um margt forgangsröðunina og smekkvísina hjá hæstv. ríkisstjórn að á sama tíma og hún kallar á aukafjárveitingar til að endurnýja ráðherrabílana hraðar ætlar hún að láta öryrkjana bíða nokkrum árum lengur með að fá að endurnýja bifreiðarnar sínar.

Þessi fjárlagaliður, 08-206, var á sínum tíma niðurfelling á vörugjöldum og opinberum gjöldum af bifreiðum. Það er þess vegna alveg ljóst að á móti þessum kostnaði koma tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum og virðisaukaskatti af þeim sömu bifreiðum og öryrkjarnir eru að endurnýja. Við teljum varlegt að áætla að 150 millj. kr. styrkir til bifreiðakaupa, til að mynda 600 styrkir upp á 250 þús. kr., geti leitt til aukins innflutnings sem nemi um 100 bifreiðum, eða 15%, og skili um 50 millj. kr. í vörugjöld annars vegar og 50 millj. kr. í virðisaukaskatt hins vegar og þess vegna sé í raun nettókostnaður við að falla frá þessum niðurskurðaráformum hæstv. ríkisstjórnarinnar --- sem ekur um á nýju bílunum sínum --- aðeins um 50 millj. kr. En þarna er sem sagt gerð grein fyrir um 1.150 millj. sem lúta að kjörum öryrkja, ellilífeyrisþega og atvinnulausra.

Þá að eflingu samfélagsþjónustunnar. Þar höfum við kosið að leggja þungann í áherslum okkar á stöðu háskólastigsins í landinu. Við teljum að við megum nokkuð vel við una framlög til grunnskólastigsins og að framhaldsskólastigið njóti að mestu leyti viðunandi framlaga þó að þar séu ýmis atriði sem við höfum bent á að leiðrétta þurfi en fyrst og fremst þurfi að efla háskólastigið. Við lýsum verulegum áhyggjum, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson lýsti hér fyrr í umræðunni, yfir því ef Háskóli Íslands stendur frammi fyrir því að þurfa að neita 900 nemendum um inngöngu í haust. Við leggjum því til fjáraukningu á lið 02-201 Háskóli Íslands upp á 740 millj. kr. og með sama rökstuðningi á lið 02-210 Háskólinn á Akureyri 140 millj. kr. og lið 02-215 Kennaraháskóli Íslands 190 millj. kr. Við munum af sömu ástæðum milli 2. og 3. umr. fara sérstaklega yfir framlög til Tækniháskóla Íslands og gera viðeigandi tillögur í því sambandi við 3. umr. með vísan til áherslna Samf. á eflingu verk- og tæknináms.

Þá er gerð tillaga um 200 millj. kr. aukningu á liðinn 08-500 og það er til eflingar heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Álit Samf. er að mjög verulega þurfi að efla grunnþjónustuna í heilbrigðiskerfinu, hina almennu heilsugæslu, og mæta þeim þúsundum í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum, ekki síst Hafnarfirði, sem eru án viðunandi þjónustu á þessu sviði. Við teljum að með því að efla heilsugæsluna munum við til lengri tíma spara í hinni dýrari heilbrigðisþjónustu, í hátæknisjúkrahúsunum, og þess vegna sé hér um að ræða fjárfestingu til framtíðar.

Að þessum þáttum slepptum eru síðan gerðar tvær tillögur sem lúta að því að efla eftirlitsstofnanir samfélagsins. Önnur þeirra snýr að fjárlagalið 09-250, sem er innheimta ríkistekna, og felst í því að við verjum 200 millj. kr. meira til skatteftirlits. Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir svo að ekki verður um villst að það er ráðstöfun fjármuna sem skilar sér sannarlega margfalt til baka. Við gerum raunar ráð fyrir í tekjutillögum okkar að skila verulegum tekjum þeim megin. Eru þær tölur að mestu byggðar á reynslutölum annarra þjóða.

Sömuleiðis er gerð tillaga um eflingu Samkeppnisstofnunar, það er liður 12-902, um að þar verði varið 30 millj. kr. til að efla starfsemi Samkeppnisstofnunar. Við vekjum sérstaklega athygli á því að bæði hefur Samkeppnisstofnun ávallt verið innan heimilda fjárlaga og eins hinu að því miður hefur verið gerð hagræðingarkrafa á Samkeppnisstofnun á hverju ári frá því að hún hóf starfsemi. Þegar við skoðum starfssvið Samkeppnisstofnunar er alveg ljóst að það og verkefni hennar fara sífellt vaxandi og við teljum því óeðlilegt að þrengt sé ár frá ári að starfsemi stofnunarinnar með hagræðingarkröfu. Sú uppsafnaða hagræðingarkrafa ein er orðin um 20 millj. í ársfjárveitingum Samkeppnisstofnunar og vegna þess að stofnunin hefur lagt ríka áherslu á að vera innan heimilda fjárlaga, ólíkt ýmsum öðrum stofnunum ríkisins, leggjum við áherslu á að sú frammistaða verði virt og verkefni stofnunarinnar með þessari fjárveitingu.

Á tekjuhlið frv. gerum við síðan ráð fyrir 600 millj. kr. betri skilum á tekjuskatti í ljósi þess sem ég hef áður sagt um eflingu skatteftirlitsins. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 1.550 millj. kr. hærri tekjum í virðisaukaskattinum, bæði með vísan til bifreiðastyrkjanna, til vanáætlunar að hluta en jafnframt til aukningar eftirlitsins.

[18:45]

Þá er að finna nokkrar tillögur um sparnað í rekstri ríkisins. Þar sjáum við 600 millj. kr. niðurskurð á almennum verkefnum ráðuneytanna. Þar er jafnframt lagt til að frestað verði eða fallið frá því að heimila yfirfærslur á afgangi frá yfirstandandi ári upp á 500 millj. kr. Sömuleiðis er gerð tillaga um niðurskurð á ferða- og risnukostnaði upp á 600 millj. kr., en nýleg úttekt sýnir okkur að sá liður er orðinn 2,8 milljarðar kr. í rekstri ríkisins og var ferðakostnaðurinn að vaxa um 9% á síðasta ári og risnukostnaðurinn um 13% eða verulega umfram verðlagsþróun. Þannig hefur það verið núna ár frá ári í mörg ár að þessir kostnaðarliðir, ferðakostnaðurinn og risnukostnaðurinn, hafa verið að hækka umtalsvert umfram almenna verðlagsþróun. Við teljum að það sé verulegt borð fyrir báru í þessum liðum auk þess sem Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli fjárlaganefndarmanna á því í heimsókn til hennar að ferðalög, einkum forstöðumanna ríkisstofnana, séu í ýmsum tilfellum orðin óhófleg og sú mikla fjarvist sem þeim hefur fylgt farin að koma niður á starfsemi stofnananna.

Þá er gerð tillaga um frestun liða á framkvæmdum er varða viðhald og stofnkostnað upp á 325 millj. kr. og að síðustu er tillaga um niðurskurð á aðkeyptri sérfræðiaðstoð upp á 1.300 millj. kr. Í því sambandi er vert að benda á að árið 2000 gerði Ríkisendurskoðun sérstaka úttekt á aðkeyptri ráðgjöf hjá ríkinu og gerði verulegar athugasemdir við þann mikla vöxt sem verið hafði í útgjöldunum þá næstu fimm ár á undan. Frá árinu 1994--1999 óx þessi kostnaður úr 1,1 milljarði, 1.100 millj. kr. í 2.004 millj. árið 1999 og sætti gagnrýni Ríkisendurskoðunar árið 2000, en það hefur augljóslega ekki verið brugðist við þeirri gagnrýni sem þar var sett fram af hálfu Ríkisendurskoðunar því frá árinu 1999 hafa þessar 2.004 millj. vaxið í hvorki meira né minna en 4.048 millj. Við teljum, virðulegi forseti, að þarna sé verulegt borð fyrir báru og full ástæða til að skera þar niður um 1.300 millj. og færast þá nær þeim kostnaði sem var þegar Ríkisendurskoðun gagnrýndi hann sem harðast.

Þá hef ég, virðulegi forseti, gert grein fyrir helstu atriðum í brtt. þeim sem Samfylkingin flytur nú við 2. umr. en árétta að hér er fyrst og fremst um að ræða áherslur Samfylkingarinnar og við kunnum að koma fram með frekari brtt. við 3. umr. Og ég verð að leyfa mér, virðulegur forseti, að afturkalla eina brtt. sem er að finna á þskj. 427 því að hún virðist hafa lent á röngum lið, þ.e. 25 millj. kr. til átaks í hrossarækt. Stafar það af ónógum upplýsingum og villandi við vinnslu tillagnanna sem aftur minnir mig á aðrar tillögur sem er að finna á þskj. 427 en það eru einar þrjár millifærslutillögur. Sú fyrsta sem þetta minnti mig einmitt á er tillagan um 10 millj. kr. til hagdeildar Alþingis. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að þingið fái sjálfstæða hagdeild til þess að aðstoða þingmenn við tillögugerð og upplýsingaöflun, sérstaklega í ljósi þess hve illa hefur gengið að kalla eftir upplýsingum í fjárln. þetta haustið, sýnu verr en nokkru sinni fyrr, ef ég skil samnefndarmenn mína rétt. Við gerum hins vegar ekki ráð fyrir því að hagdeildin sé útgjaldaauki heldur sé hún einfaldlega millifærð af liðnum efnahagsrannsóknir, en hann er í dag vistaður hjá forsrn. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 100 millj. kr. ráðstöfun úr samgöngumálum sem er millifærsla. Þar er verið að gera ráð fyrir því að þeim 100 millj. sé sérstaklega varið í að ráðast að svörtum blettum í umferðinni. Við höfum á síðustu dögum fylgst með fréttum af þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur í Reykjavík á undanförnum 10 árum í baráttunni við alvarleg umferðarslys. Þeim hefur fækkað umtalsvert með markvissum aðgerðum og markvissri fjárfestingu í því sem við köllum svarta bletti, þá staði í umferðarkerfinu í borginni þar sem alvarleg slys verða. Með sama hætti getum við með skipulegum hætti tekist á við ýmis vandamál í þjóðvegakerfinu og bætt þar árangur okkar verulega því að því miður hefur alvarlegum slysum utan höfuðborgarsvæðisins ekki fækkað með sama hætti og tekist hefur í höfuðborginni með markvissum aðgerðum. Að síðustu er lítil millifærsla, 5 millj. kr., um kortlagningu á náttúrufarsrannsóknum en það er, virðulegur forseti, sameiginleg tillaga meiri og minni hluta umhvn. um mikilvægt verkefni, að því er þeim fannst, á næsta ári og við töldum eðlilegt að orðið yrði við og ráðstafað af safnlið í þennan þátt.

Þá vil ég, virðulegur forseti, víkja aðeins nokkrum orðum að brtt. meiri hluta fjárln. og kannski ekki síst sem nýliði í þinginu. Hér er við 2. umr. fjárlaga fjallað um brtt. meiri hluta fjárln. upp á 567,7 millj. kr. og snýr að verulegu leyti gagnvart alls kyns smáerindum sem borist hafa nefndinni en eru sem sagt tillögur meiri hluta nefndarinnar um aukningar á útgjöldum við þessa umræðu. Eftir að hafa fylgst með því hvernig þessi útdeiling meiri hluta fjárln. á fjármunum gengur fyrir sig, þá kallaði ég eftir því að hún yrði greind með þeim hætti að við fengjum um það upplýsingar hvernig þessi tillaga meiri hluta fjárln. skiptist eftir kjördæmum. Nú er til þess að líta að ýmislegt af þeim umsóknum sem undir hafa verið eru í Reykjavík eðli máls samkvæmt vegna þess að þær ná yfir landið allt en eru staðsettar hér, en af þessum 567,7 millj. runnu 300 millj. til aðila sem eru skráðir hér en oftlega auðvitað til starfsemi sem nær til landsins alls.

Þegar brotið er upp á milli hinna fjögurra kjördæmanna, þ.e. Suðvest., Norðvest., Norðaust. og Suðurk., þá koma athyglisverðar tölur í ljós. Af þeim 267,7 millj. kr. sem til ráðstöfunar eru af þessum brtt. meiri hluta fjárln. renna 2 millj. kr. til Suðvest. eða 0,7%. Þar búa liðlega 67 þúsund Íslendingar og brtt. meiri hluta fjárln. lýtur því að því sem næst 29,70 kr. á hvern íbúa. Þegar komið er í Suðurk., þá er um að ræða fjárveitingar upp á 41 millj. kr. en þar eru íbúar um 40 þúsund rétt liðlega eða um 1.010 kr. á hvern íbúa. Þegar komið er í Norðaust. er um að ræða 62,4 millj. kr. í fjárveitingar, þ.e. 23,3% af þeim fjárveitingum sem hér um ræðir, og mér telst til að séu um 1.658 kr. á hvern íbúa sem eru tæplega 40 þús. í Norðaust. Þegar svo er komið í Norðvest., og það er ástæða til að vekja athygli á því að hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður fjárln. eru báðir einmitt úr því kjördæmi, Norðvest., þá er af þessum 267,7 millj. varið 162,3 millj. í því kjördæmi eða 60% rétt liðlega af því sem til ráðstöfunar var. Þar eru íbúar um 30 þúsund og fjárveiting á hvern íbúa þá rétt um 5.377 kr. samanborið við 1.010 kr. í Suðurk. og 29,70 kr. í Suðvest.

Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti, hvernig á þessu mikla misræmi standi og satt að segja hvort það sé viðeigandi að hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður fjárln. sigli með ríkissjóð um hvern vog og hverja vík í sínu eigin kjördæmi eins og þetta best sýnir.