Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 18:56:11 (2063)

2003-11-25 18:56:11# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði að umtalsefni samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands. Ég vil taka það fram og vísa á bug öllum ásökunum um svik í þessu efni því að mergurinn málsins í þessu samkomulagi var að taka upp aldurstengdar örorkubætur sem er alger kerfisbreyting og tímamót. Það verður gert núna um áramótin og það verður lagt fram frv. núna á næstu dögum um það og þeim milljarði sem er í frv. verður varið til þess að taka upp þessar aldurstengdu örorkubætur. Hins vegar er útlit fyrir að við náum ekki markinu um að allt að tvöfalda bæturnar eins og hjá yngstu öryrkjunum, við náum því ekki í einum áfanga en við erum staðráðin í að gera það og við munum ganga þannig frá frv. að það markmið verði þar inni þannig að ég vísa öllum ásökunum um svik í þessu efni á bug því ég legg allt kapp á það að efna þetta samkomulag. Og meginþátturinn í því var að breyta um kerfi og það er milljarður í frv. til að breyta um þetta kerfi, og síðan verðum við að taka annað skref. Þess vegna vil ég taka þetta fram sérstaklega núna.

Ég vil einnig taka það fram varðandi hjálpartækin og bílana að reglugerð um bílana var rýmkuð á árinu sem hleypti útgjöldunum upp um nokkur hundruð millj. Það er útlit fyrir að þau verði 500 millj. á þessu ári. Við munum fara yfir það á næsta ári hvort þetta er toppur og hvort þetta fari yfir. Það munum við fara yfir þegar reynsla kemur á þessa breytingu.