Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 19:05:36 (2069)

2003-11-25 19:05:36# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[19:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögum meiri hluta fjárln. eru þó nokkuð margar tillögur sem flestar snúa að því að bæta og auka framlög til náttúrustofa úti um landið, til íþróttamála úti um landið og til alls kyns menningarmála úti um landið. Þannig vill til að í gangi eru þó nokkuð margir samningar bæði um náttúrustofur, um íþróttamannvirki og um menningu. Þessir samningar eru allir í Norðaust. Það eru tveir menningarsamningar, annar um Austurland og hinn um Eyjafjörð. Þegar þetta er lagt saman eru þetta tæplega 200 millj. kr. þannig að klámhögg hv. þm. er hörmulegt. Hann hefði átt að kynna sér þetta betur áður en hann fór að reiða svo hátt öxina að ég og hv. formaður nefndarinnar værum að rata hér á hvern fjörð og vík með peninga ríkisins.

Það liggur líka fyrir ef menn vilja vita það hvert menningarstarfsemin fer helst á Íslandi. Hún fer til Reykjavíkur. Og ef menn vilja fara út í kostnað ríkisins á hvert kjördæmi þá liggur það fyrir að kostnaðurinn er að sjálfsögðu mestur í Reykjavík þar sem stjórnsýslan er. Hann er hins vegar minnstur í kraganum, Suðvest. Það hefur alltaf verið vitað og eru engin ný tíðindi.

Árið 1996 var sett inn í almannatryggingalögin ákvæði um að öryrkjar og ellilífeyrisþegar skyldu njóta bóta og kjör þeirra skyldu fylgja almennri verðlagsþróun eða almennri þróun launa eftir því hvað var hærra. Síðan þá hefur þetta gengið eftir nákvæmlega eða farið eftir almennri þróun launa. Það eru ósannindi og hreinn tilbúningur að síðan þá hafi verið kjaraskerðing á launum ellilífeyrisþega og öryrkja.