Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 19:18:11 (2077)

2003-11-25 19:18:11# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[19:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum nú fjárlögin í annað sinn og það má sannarlega taka undir óskir sem hér hafa komið fram frá hv. þingmönnum þess efnis að hæstv. ráðherrar heiðri okkur með nærveru sinni því að hér er verið að fara yfir allt málasviðið. Allt liggur undir og stefna ríkisstjórnarinnar á komandi ári er auðvitað til skoðunar í fyrirliggjandi fjárlagafrv.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur í ágætri ræðu gert grein fyrir heildarsjónarmiðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við þessa fjárlagaumræðu. Dreift hefur verið á borð þingmanna brtt. okkar varðandi einstök atriði og mun ég nú fylgja úr hlaði þeim brtt. sem ég er 1. flm. fyrir.

Ég hef leikinn á skólamálum. Í heildina vil ég segja, virðulegi forseti, að ríkisstjórnina vantar sárlega stefnumótun í skólamálum, sérstaklega er ég þá með í huga málefni háskólastigsins og framhaldsskólastigsins. Hæstv. ríkisstjórn hefur látið undir höfuð leggjast að gera langtímaáætlun sem geri fólki ljósa grein fyrir því hvert stefnir í þessum málum. Stefnuna hefur öðru fremur verið hægt að lesa út úr fjárlagafrv. ár hvert og fjárlögum og er svo einnig nú.

Samkvæmt því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir verða þeir opinberu háskólar sem stærstir eru, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands, allir fyrir barðinu á niðurskurði að því leytinu til að ekki er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum vegna fjölgunar nemenda. Nú er það alkunna að nemendum á háskólastigi hefur farið fjölgandi á ári hverju og þætti manni eðlilegt að ríkisstjórnin opnaði augu sín fyrir því og gerði ráð fyrir auknum fjárframlögum til þess að standa straum af kostnaði við kennslu þessara nemenda.

Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að til kennsluþáttar Háskóla Íslands verði veitt upphæð sem er rúmlega 343 millj. kr. hærri en á síðasta ári og þar er áætlað fyrir hluta af nemendafjölguninni, þ.e. í frv. er gert ráð fyrir að ársnemum fjölgi í Háskóla Íslands um 700 frá forsendum fjárlaga yfirstandandi árs og verði greitt fyrir 5.200 ársnemendur að hámarki miðað við meðalverðhlutfallið.

Hvernig horfir það við raunverulegri áætlun stjórnenda Háskóla Íslands? Sannleikurinn er sá að áætlun stjórnendanna hljóðar upp á 5.750 nemendur en ekki 5.200 og stjórnendur háskólans hafa reynst frekar undir þeim fjölda sem endanlega sækir um skólavist en yfir þannig að hér má gera ráð fyrir að fremur varlega sé áætlað um nemendafjölda, þ.e. 5.750. Þar af leiðandi vantar 10% upp á að nægilegt fjármagn sé áætlað til kennsluþáttarins í Háskóla Íslands.

Til hvers er þá ætlast af Háskóla Íslands við þessar aðstæður? Er ætlast til þess að hann hætti að taka inn nemendur? Það kann að vera að það sé það sem ríkisstjórnin ætlast til en þá verður hún að koma fram og segja svo. Það er ekki hægt að skilja það eftir í höndum stjórnenda þessara háskóla að þeir taki þær ákvarðanir sjálfir, það verður þá að vera menntapólitísk stefna ríkisstjórnarinnar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gagnrýnum þetta og ríkisstjórnina fyrir þessa framgöngu og leggjum til að hér verði áætlað fyrir þeim nemendafjölda sem fyrirsjáanlega kemur í Háskóla Íslands á næsta ári. Þar af leiðandi leggjum við til breytingu upp á 280 millj. kr. á kennslulið Háskóla Íslands sem ætti þá að nægja til kennslu þeirra 5.750 nemenda sem gert er ráð fyrir að komi í skólann.

Annað atriðið sem við gerum athugasemd við, virðulegi forseti, er rannsóknaþátturinn í starfi Háskóla Íslands. Fræðsluyfirvöld og ráðherra menntamála hafa gert mikið úr því að Íslendingar standi framarlega í menntamálum og sú ríkisstjórn sem nú situr hefur státað af því að ætla sér að gera rannsóknum hærra undir höfði en gert hefur verið. Í hverju birtist sú stefna í þessu fjárlagafrv.? Hún birtist í því að 121 millj. kr. er skorin af framlagi Háskóla Íslands til rannsókna miðað við síðasta ár. Það er nánast verið að segja upp bráðabirgðasamkomulagi sem gilt hefur sl. þrjú ár um rannsóknir við Háskóla Íslands. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fylgir því bráðabirgðasamkomulagi segir að rannsóknir séu ekki síður mikilvægar en kennsla og teldi maður þá að ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir að einhverju þyrfti að kosta til svo að segja mætti að stefnu þeirra í rannsóknarmálum væri að einhverju leyti fylgt eftir. Það er sem sagt ekki gert, heldur er hér skorið hraustlega niður og í brtt. meiri hluta fjárln. er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum eða leiðréttingu á þessu heldur er einungis lögð til 5 millj. kr. tímabundin fjárveiting til áframhaldandi næringarfræðilegra rannsókna á kúamjólk og lágu nýgengi af sykursýki 1 hérlendis. Skal nú ekki kastað neinni rýrð á þá rannsókn sem hér um ræðir en ég spyr: Hvar eru 105 milljónirnar sem voru skornar af Háskóla Íslands, almennu rannsóknarfé? Hvers vegna gerir fjárln. ekki ráð fyrir því að þetta sé leiðrétt?

Ég sé ekki betur en að hv. formaður fjárln. skuldi stjórnendum Háskóla Íslands verulega skýringu. Annars staðar á Norðurlöndunum hefur verið reynt að standa í ístaðinu þannig að framlag til kennsluþáttarins sé jafnhátt og til rannsóknanna. Reyndar hafa síðan rannsóknasjóðir komið með þriðju krónuna, má segja, inn í rannsóknir við norræna háskóla sem við berum okkur saman við. Ég verð að segja að í okkar umhverfi þar sem við erum með veikburða sjóði miðað við Norðurlöndin skiptir verulegu máli að fjárlögin standi þannig við bakið á háskólastofnununum að hægt sé að standa undir lágmarksrannsóknum. Það gefur augaleið að þegar þarf að fjölga kennurum á háskólastigi fjölgar líka því fólki sem þarf eðli málsins samkvæmt að starfa við rannsóknirnar. 40% af vinnuskyldu háskólakennara eru jú við rannsóknir. Það er fullkomlega óraunhæft og órökrétt að ganga svo fram sem meiri hluti fjárln. gerir í brtt. sínum, að áætla ekki fyrir endurkomu þessara 105 millj. inn í háskólann til rannsóknanna. Það væri það minnsta sem hægt væri að gera. Brtt. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gengur sem sagt út á það að 105 millj. kr. verði aftur settar inn á liðinn Rannsóknir og önnur verkefni undir Háskóla Íslands.

Gagnvart Háskólanum á Akureyri gerum við samsvarandi tillögur varðandi kennsluþáttinn, þ.e. að rétt fjármagn verði áætlað miðað við aukinn nemendafjölda í Háskólanum á Akureyri. Við gerum ráð fyrir að 100 millj. verði bætt á kennsluþáttinn þannig að háskólinn þurfi ekki að neita umsækjendum um skólavist.

Kennaraháskóli Íslands hefur einmitt farið þá leið að hafna nemendum sem sækja um skólavist vegna þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim í fjárlögum. Árið 2003 hafnaði Kennaraháskóli Íslands um þúsund nemendum með góð stúdentspróf vegna þess að ríkisstjórn Íslands hafði ekki gert ráð fyrir því að Kennaraháskólinn gæti tekið inn nema ákveðinn fjölda nemenda.

(Forseti (JBjart): Til stóð að gera hlé á þingfundi milli klukkan hálfátta og átta. Forseti býður hv. þingmanni að halda áfram ræðu sinni klukkan átta þegar þingfundur hefst aftur enda gengið út frá því að ræðan sé lengri en svo að hægt sé að ljúka henni á þeim tíma sem eftir er.)

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt, ég get ekki lokið ræðu minni á tveimur til þremur mínútum þannig að ég þigg það að fá að halda henni áfram klukkan átta.