Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:49:14 (2079)

2003-11-25 20:49:14# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talar hér mjög háðulega um gerðir fjárln. með hækkun á lið húsafriðunarnefndar, sem er tímabundin hækkun um 88 millj. kr. Ég vil mótmæla því að það sé hagsmunapot og eiginhagsmunasemi sem þarna ráði ríkjum. Vissulega eru þessi verkefni úti á landi en þau eru að langmestu leyti og ég held að öllu leyti á forræði sveitarfélaga og félagasamtaka. Þarna er verið að bjarga menningarverðmætum að mínu mati í flestum tilvikum og þetta er eitt af þeim verkefnum sem skipta máli þegar við ræðum um menningartengda ferðaþjónustu. Ég vil vísa í skýrslu, sem hæstv. núv. menntmrh. Tómas Ingi Olrich var í forustu fyrir, sem heitir Menningartengd ferðaþjónusta og í eru mjög margar góðar tillögur. M.a. er þess getið í þeirri skýrslu hve miklu máli skiptir að sinna þessum verkefnum.

Ég ætla aðeins að minnast hér á nokkur verkefni sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Það er t.d. uppbygging Duus-húsanna í Reykjanesbæ, uppbygging Kaupvangs á Vopnafirði, uppbygging Tryggvaskála á Selfossi og svo mætti lengi telja. Ég vil minnast á fyrsta sjúkrahúsið sem byggt var á Akureyri, pakkhúsin í Borgarnesi og eins vildi ég minnast á endurbætur á kirkjunni í Flatey á Breiðafirði. Ég held að þessi verkefni séu ekki eiginhagsmunapot.