Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:53:04 (2081)

2003-11-25 20:53:04# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins víkja hér að hækkunartillögum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir hönd vinstri grænna, en þar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins hækki um 5.535 millj. kr. Lækkun arðgreiðslna verða 1 milljarður, sérstakur tekjuskattur 1.050 milljónir og fjármagnstekjuskattur 2 milljarðar, eða samtals 4.050 milljónir. Þannig að gjöld umfram tekjur eru þá 1.485 millj. Þetta eru kostnaðartillögur vinstri grænna og ég held að það sé sjálfsagt að halda því til haga.

Því stingur það örlítið í stúf þegar við lítum á brtt. vinstri grænna varðandi náttúrustofur þar sem þeir gera tillögu um að minna sé lagt til náttúrustofa á landinu en meiri hluti fjárln. leggur til og munar þar 2,7 milljónum í heildina. Það var ekki að heyra að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði sér grein fyrir því að sveitarfélögin leggja til móts við náttúrustofurnar hlutfall sem um var samið á milli ríkis og sveitarfélaga. En ég vildi aðeins halda því til haga að þarna eru gjöld umfram tekjur 1.485 millj. kr. sem vinstri grænir leggja til.