Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 21:19:54 (2088)

2003-11-25 21:19:54# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[21:19]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Spár sem fram komu í fjárlögum um efnahagsþróun ársins 2003 reynast langt frá raunveruleikanum. Reynslan segir okkur að hætta sé á að sömu sögu verði að segja um spá fyrir næsta ár og rekstrarniðurstöðu þess.

Samtök atvinnulífsins hafa nýlega bent á í grein hve mikill munur sé að jafnaði á fjárheimildum í fjárlögum hvers árs og þeim fjármunum sem varið er til rekstrarins samkvæmt endanlegu rekstraruppgjöri og að skýringanna sé m.a. að leita í ófullkominni áætlanagerð. Það er einmitt sú áætlanagerð sem við erum að fjalla um hér, þ.e. fjárlög komandi árs.

En vinnubrögðin við fjárlagagerðina eru að ýmsu leyti afar sérkennileg. Ekki er farið ofan í grunnforsendur rekstrarins hjá stofnunum, ekki einu sinni á tilteknu árabili. Rammi er búinn til og látinn halda sér frá ári til árs burt séð frá því hvort breytingar hafi átt sér stað í rekstrarumhverfi stofnunarinnar, t.d. með lagabreytingu. Stofnanir eru ekki beðnar um fjárlagatillögur til ráðuneyta og þeim jafnvel bannað að koma á fund fjárln. með erindi sín. Það er ótrúlegt en satt.

Eftir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar komust á snoðir um þessi umræddu bréfaskrif ráðuneyta til undirstofnana sinna og óskuðu eftir að fulltrúar tiltekinna stofnana kæmu á fund nefndarinnar kom í ljós hve fráleit vinnubrögð þar voru á ferðinni, að ekki sé talað um þá staðreynd að framkvæmdarvaldið hefur ekki leyfi lögum samkvæmt til þess að grípa á þennan hátt fram fyrir hendurnar á löggjafarvaldinu.

Á fund fjárln. komu forráðamenn stofnana sem árlega hafa sótt á fund nefndarinnar en skirrtust við að eiga frumkvæði að því að þessu sinni vegna umræddrar tilskipunar fjmrn., sem var með henni að fara að samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Ríkisstjórn Íslands samþykkti sem sagt á fundi sínum aðför að löggjafarvaldinu.

Stofnunum sem eiga að gegna lögskipuðum verkefnum er gert það ókleift með allt of litlu fjármagni, jafnvel árum saman. Afleiðingarnar eru síðan að verkefni dragast á langinn og missa jafnvel marks vegna tímans sem þau taka í vinnslu. Dæmi um það er rannsókn Samkeppnisstofnunar á samráði olíufélaganna. Þessu fylgir einnig óhóflegt álag á starfsfólk.

Það eru nokkur sameiginleg einkenni á umkvörtunarefnum þessara stofnana. Meðal þeirra eru að samþykkt séu lög sem leggja stofnunum á herðar útgjöld en ekki er komið til móts við það með viðeigandi fjármagni. Dæmi er viðbótarlífeyrissparnaður. Sama er að segja um lífeyrisskuldbindingar og kostnað vegna veikinda. Þetta fá stofnanirnar ekki bætt.

Framhaldsskólum er gert að taka upp nýtt tölvukerfi sem hefur í för með sé aukinn kostnað. Þeim er gert að taka upp FS-netið sem er gagnleg nýjung fyrir suma en aðrir hafa ekki af því not umfram hefðbundna tölvuþjónustu. Allt er þetta aukinn kostnaður sem ekki fæst bættur. Öllum er gert að taka inn þetta FS-net með gífurlegum aukakostnaði án þess að tillit sé tekið til þess í fjárveitingum til skólanna. Þegar forsvarsmenn kvarta er svar fjmrn.: Þetta er kjörið tilefni til að spara.

Þessi ótrúlegu vinnubrögð ráðuneyta við fjárlagagerðina skýrast af markmiðinu en það er að setja fram fjárlög með rekstrarafgangi og síðan er treyst á guð og lukkuna með hvort hægt sé að standa við þau.

Vitað er að í mörgum tilfellum er ekki möguleiki að reka stofnanir innan þess ramma sem þannig er settur. Dæmi um það eru framhaldsskólarnir, einkum skólar með verknám. Ekki er tekið tillit til hráefniskaupa, stærðar hópa, mismunandi húsnæðisgerðar og nýtingar húsnæðis. Fyrst núna eftir áralanga baráttu skólastjórnenda sem hafa eytt ómældum tíma við að berjast við ómögulegt rekstrarumhverfi hillir undir leiðréttingu, og ekki svo að skólastjórnendur gengju að því sem vísu að leiðrétting sé í höfn þar sem fjármagnið sem til leiðréttinga er ætlað er sett á safnlið hjá ráðuneytinu. Af honum er síðan ráðstafað eftir hentugleikum ráðuneytisins og enginn veit fyrir fram hvað kemur í hans hlut. Hvernig á að vera hægt að gera rekstraráætlanir með þessu móti?

Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur ályktað um fjárlagafrv. fyrir komandi ár og segir í bréfi þeirra, sem dagsett er í dag, 25. nóv. 2003, með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur fjallað um fyrirhugaðar fjárveitingar til framhaldsskóla á grundvelli fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004 sem nú liggur fyrir á Alþingi og tillagna fjárlaganefndar um 600 millj. kr., viðbótarframlag. Stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vanáætla árvisst gróflega fjárveitingar til framhaldsskóla hvað varðar nemendafjölda þeirra og heildarfjárþörf.

Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í október kom í ljós að nemendafjöldi framhaldsskólanna var mjög vanáætlaður. Frumvarpið gerði ráð fyrir 16.220 ársnemendum en varfærin spá ábyrgra aðila bendir til þess að nemendafjöldi verði aldrei undir 17 þúsund nemendum. Einnig vantaði í fjárlagafrumvarpið um 400 millj. kr. samkvæmt reiknilíkani til þess að mæta kostnaði vegna kennslu þeirra 16.220 nemenda sem frumvarpið miðaðist þó við. Stjórnin bendir á að tveir þriðju hlutar fyrirhugaðs 600 millj. kr. viðbótarframlags fari í að borga það sem allan tímann vantaði upp á til að kosta mætti kennslu þeirra 16.220 nemenda sem reiknað var með frá upphafi. Með góðum vilja er því hægt að tala um 200 millj. kr. viðbótarframlag og má fyrir þá fjárhæð kenna um 400 framhaldsskólanemendum til viðbótar. Enn vantar því a.m.k. 200 milljónir til þess að sinna lágmarksþjónustu við nemendur framhaldsskóla en líklega þó mun meira þar sem litlar líkur eru á að nemendafjöldi fari ekki yfir 17 þúsund nemendur á ársgrundvelli.

Stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir þann árvissa hráskinnaleik með tölur um fjárveitingar til framhaldsskólans sem þingi og þjóð er boðið upp á og telur hann hæfa illa ríkisstjórn sem kennir sig við viðleitni til umbóta í ríkisrekstri með tilheyrandi langtímastefnumótun og ábyrgri fjármálastjórn. Stjórnin hvetur ráðherra í ríkisstjórn, fjárlaganefnd og alla þingmenn til þess að bæta nú um betur og setja fjárframlög til framhaldsskólanna á raunhæfan grundvöll fyrir árið 2004 þannig að í minna mæli þurfi að koma til síðbúinna björgunaraðgerða með fjáraukalögum.``

Ég ætla að leyfa mér að taka undir þessa ósk stjórnar Félags framhaldsskólakennara því að ég held að tíma stjórnenda framhaldsskólanna verði ólíkt betur varið en að þurfa alltaf að berjast við fjármagnsskort sem kemur vegna vanáætlunar undanfarin ár.

Annað dæmi um vanreiknað fjármagn er fjármagn til atvinnuráðgjafa sem hefur ekki fylgt verðlagsþróun undanfarinna ára og er það þó liður sem maður mundi halda að óreyndu að samkomulag væri um að virkilega væri þörf á að héldi sér. Sá liður hefur haldist óbreyttur að krónutölu frá 1997 þar til nú að tillaga er um 15 millj. kr. viðbót á fjárlögum þar sem aftur á móti matið á fjárþörfinni eða viðbótarþörfinni er 100 milljónir.

Atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni geta skipt sköpum um byggðaþróun ef þeim eru sköpuð skilyrði til. Atvinnulífið á landsbyggðinni víðast hvar er allt of fábreytt og það veldur því að smærri byggðarlög verða reglulega fyrir alvarlegum áföllum. Það má ekkert koma upp í undirstöðuatvinnugrein viðkomandi svæðis til þess að byggðarlagið sé ekki allt í stórhættu. Þetta veikir tiltrú manna á viðkomandi svæðum og dregur úr líkum á framþróun. Þarna vantar framsýni og stuðning við frumkvæði einstaklinga og byggðarlaga.

Sérstaklega þyrfti að sinna atvinnumálum kvenna en eins og kunnugt er þykir almennt ekki ástæða til að sinna þeim neitt sérstaklega, jafnvel þó að alkunna sé að atvinnuleysi er mun meira meðal kvenna en karla og meðaltekjur þeirra jafnframt mun lægri.

Þolinmótt fjármagn er varla til og varla heyrist algengara umkvörtunarefni frumkvöðla í atvinnulífi en einmitt það hversu erfitt er að nálgast stuðning við uppbyggingu. Athyglisvert er að bera saman stuðning íslenskra stjórnvalda við íslenska frumkvöðla og norska ríkisins við þarlenda. Svo vill til að tveir einstaklingar hófust handa við að byggja upp nákvæmlega sams konar nýjan atvinnurekstur í Norður-Noregi og á Íslandi. Fagþekking var til staðar á Íslandi og var miðlað þaðan til Noregs. Stuðningur við uppbygginguna er hins vegar til staðar í Noregi og þar er fyrirtækið komið í eigið húsnæði með fyrirtækisbíl, búið að afla markaðar og framleiðslan komin á fullt, á meðan íslenska fyrirtækið er að basla í umhverfi sem lætur sér fátt um finnast. Framleiðslan er að vísu á góðri leið fyrir ómælt erfiði frumkvöðlanna en allur stuðningur er í skötulíki. Þessi dæmi segja sögu sem við því miður þekkjum í allt of mörgum myndum.

Formaður fjárln. sagði í ræðu sinni að hann vildi stuðla að breyttum vinnubrögðum við fjárlagagerðina næsta ár. Ég treysti því að orðum formannsins fylgi athafnir.