Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 22:42:32 (2093)

2003-11-25 22:42:32# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt náttúrlega að harma þessi svör mjög. Ég hafði satt best að segja gert mér vonir um að það væri a.m.k. einhver opnun í málinu, hæstv. ráðherra væri ekki svo illa kominn í þessum efnum eftir alla umræðuna sem orðið hefur um þetta mál á haustmánuðum og þá víðtæku óánægju og mótmæli sem fram hafa komið, að það hafi engu breytt. Það fer nú í verra ef hæstv. félmrh. er algerlega ónæmur á umhverfið að þessu leyti eða þá að aðstæður hæstv. ráðherra eru þannig að hann getur sig hvergi hreyft. Hvað veldur því þá? Hvað veldur því? Er hægt að fá það skýrt þegar við sjáum hvernig hlaup er í tölum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þá er erfitt að trúa því að 170 milljónir séu svo gjörsamlega lífsnauðsynlegar að þær verði að vera þarna og svona útfærðar, til þess að --- hvað? Til þess að ríkisstjórnin hangi saman? Það væri fróðlegt að fá svör við því. Ég beindi reyndar þessum spurningum til hæstv. fjmrh. líka, þannig að ég má kannski nota restina af ræðutímanum í þessu seinna svari mínu við andsvari til að ítreka þær spurningar? En strandar þetta á hæstv. fjmrh.? Er það Sjálfstfl. sem er að neyða hæstv. félmrh. til að gera þetta? Eða vill bara hæstv. félmrh. hafa þetta svona? Er þetta stefna hæstv. félmrh. Árna Magnússonar? Telur hann rétt að gera þetta? Er það sannfæring hæstv. félmrh.? Ég vil fá einhvern botn í þetta mál. Þetta er eitthvað skrýtið. Hvað er hér á ferðinni milli stjórnarflokkanna og innan þeirra og í kolli hæstv. félmrh.?