Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 22:59:09 (2095)

2003-11-25 22:59:09# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[22:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og gat þess að nýkomin væri út skýrsla um framtíðarsýn þeirrar stofnunar. Það er rétt. Hv. þm. átti sæti í þeirri nefnd sem ég skipaði til þess að fara yfir framtíðina á Suðurnesjum.

Svarið við spurningu hans er að ég er að fara yfir þá skýrslu og athuga þá möguleika sem eru til þess að framkvæma hana. Mér líst vel á niðurstöður hennar. Þær eru að auka héraðshlutdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og endurnýja skurðstofur. Það sem ég hef í hendi núna er að fara í viðhald þessarar stofnunar á næsta ári. Við munum ráða við það af okkar ramma núna. Hins vegar er ég að fara yfir niðurstöður skýrslunnar og kanna hvernig hægt er að setja upp áætlun vegna þeirra framtíðarplana sem hún leggur upp. Þó er ekki búið að setja upp áætlun um fjármögnun þeirra endurbóta á D-álmunni sem skýrslan gerir ráð fyrir. Niðurstöður skýrslunnar eru skynsamlegar að mínu mati því að ljóst er að fjölmargir Suðurnesjamenn liggja á Landspítalanum dag hvern árið um kring. Ég tel skynsamlegt að snúa þeirri þróun við. Við erum að kanna hvernig það verður gert.

Fyrir liggur að við munum fara í utanhússviðhald á stofnuninni á næsta ári. En við erum enn að skoða hvernig við mætum niðurstöðum skýrslunnar sem hv. þm. þekkir.