Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:01:38 (2096)

2003-11-25 23:01:38# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:01]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að koma hér í stutt andsvar og svara þessu því að ég geri mér grein fyrir því að það er ákaflega stuttur tími liðinn frá því að þessi skýrsla rataði inn á borð hans. En um þessa skýrslu er búið að fjalla talsvert á Suðurnesjum og m.a. kynnti starfshópurinn, sem ég minntist á áðan, niðurstöður skýrslunnar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og var gerður góður rómur að þeim tillögum sem þarna eru settar fram.

Það kom einnig fram í máli hæstv. ráðherra á þeim fundi að hann teldi þessar tillögur skynsamlegar, eins og hann orðaði það hér áðan, og ég veit að það er von þeirra sem á þessum fundi voru og sveitarstjórnarmanna allra á Suðurnesjum að það takist að snúa við þeirri þróun sem verið hefur á rekstri og þeirri stöðu sem uppi er á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við trúum því og treystum að hæstv. ráðherra nái að tryggja það fjármagn sem nauðsynlegt er til þess að svo megi verða. Ef við sjáum það ekki í tillögum á fjárlögum ársins 2004 þá er erfitt að gera sér grein fyrir með hvaða hætti unnt verður að fjármagna þær endurbætur og uppbyggingu sem þarna er nauðsynleg.