Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:03:19 (2097)

2003-11-25 23:03:19# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það að við erum að skoða þá framtíðarsýn sem í skýrslunni er og með hvað hætti hægt er að endurnýja D-álmuna þannig að þar verði skurðstofur. Þetta verkefni er tvíþætt. Það þarf að endurnýja aðra hluta sjúkrahússins þannig að þar verði aðstaða fyrir aldraða og við þurfum að taka okkur tíma. Það er rétt sem hv. þm. sagði að það er skammur tími liðinn síðan þessi skýrsla kom út og þó að ég hafi að sjálfsögðu fylgst með framvindu þessara mála og efni hennar hafi verið kynnt að nokkru leyti á ársfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lá hún ekki fyrir í endanlegri mynd þá. En við þurfum að fara yfir þetta og ég vil fara yfir það með heimamönnum hvernig við getum framkvæmt þau áform og ákveðið hvaða tímaplan við getum sett upp um það sem í skýrslunni er. Á þessu stigi hef ég ekki annað í hendi en að fara í utanhússviðhald stofnunarinnar á næsta ári, en við þurfum síðan að leggja plön um framhaldið.