Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:49:43 (2102)

2003-11-25 23:49:43# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil útskýra í sambandi við öldrunarmálin að Framkvæmdasjóður aldraðra úthlutar fjárframlögum til byggingar hjúkrunarrýma og nokkrar stórframkvæmdir eru fram undan í því. Það eru stórframkvæmdir á Hrafnistu, bæði hér í Reykjavík og eins hafa í Hafnarfirði staðið yfir miklar framkvæmdir. Það eru stórframkvæmdir hjá Eir, þeir hafa mikil áform uppi. Á Selfossi er ætlunin að fara í endurbyggingu á Ljósheimum og á Akureyri er ætlunin að bæta við Hlíð. Þetta eru stærstu framkvæmdirnar sem liggja fyrir. Þegar Framkvæmdasjóður aldraðra hefur tekið við umsóknum og farið yfir þetta mál --- umsóknarfrestur er til 1. desember --- er sjálfsagt að gera þinginu grein fyrir afgreiðslunni. Það hefur ætíð verið við fjárlagaafgreiðsluna, ekki síst þegar hún er svo snemma á ferðinni eins og núna, að bara heildarupphæðin er í fjárlagafrv.