Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:53:26 (2105)

2003-11-25 23:53:26# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar upplýsingar. Ég tók það alveg sérstaklega fram að ég hefði bundið miklar vonir við það á sínum tíma að þetta yrði sú kanína sem hægt yrði að kippa upp úr hatti fyrir bændur þessa lands. Menn hafa áður lofað ýmsu og nægir þar að minnast á loðdýr og fiskeldi og í seinni tíð skóga. Allt er þetta nú gott og blessað, að menn reyni að skjóta fleiri stoðum undir lífsafkomu bænda. Samt dugir það tæpast í viðbót við hinar hefðbundnu búgreinar. Ég gleðst einlæglega yfir því að það horfi jafnbjart í þessum efnum og raun ber vitni.

Ég minnist þess hins vegar að ég sat fund Byggðastofnunar þegar hv. þm. sat í stjórn þar sem verið var að fara yfir það að margir bændur í þessari ferðaþjónustu áttu afskaplega erfitt með að standa undir afborgunum af þeim fjárfestingum sem þeir höfðu lagt í. Það var hálfgerður dumbungur yfir a.m.k. skuldareigendum í þeim efnum.

Svo sannarlega vona ég að nú horfi til betri tíðar og ég fagna þessum glæstu framtíðaráformum og stöðu mála.