2003-11-26 00:17:51# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[24:17]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég bað um orðið hér fyrir margt löngu til að flytja svolítinn vitnisburð um þátttöku mína í þessu fjárlagaferli, þótt örlítil hafi verið, og til þess að lesa í lokin svolítið ljóð sem ég sé að hefur orðið til nánast eins og óvart í meðförum fjárln.

Fyrst þetta, virðulegur forseti. Það hefur komið fram áður í þessari umræðu að heilbr.- og trn. sendi bréf til fjárln. Ég hef ekki frumrit þess bréfs en ég er með endursögn þess úr nál. minni hluta fjárln.

Þar kemur fram, með leyfi forseta: ,,að umræddur safnliður``--- sem áður hefur verið ræddur og heilbrn. ræður yfir og sem vísað var til nefndarinnar --- ,,er að fjárhæð 13,8 millj. kr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004. Þegar leitað var skýringa á lækkun fjárlagaliðarins um 50 millj. kr. fengust þau svör frá ráðuneytinu að fjárhæðin hefði í aðalatriðum verið færð á fjárlagaliðinn 08-399 - 1.98 Ýmis framlög heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis. Vegna þessarar skerðingar treysti nefndin sér ekki til að skipta umræddum safnlið og vísaði honum aftur til fjárlaganefndar.``

Þetta segir í bréfinu og síðan segir í nál. að heilbr.- og trn. hafi einnig talið ástæðu til að gagnrýna fjárlagavinnuna í áliti sínu í því formi sem hún er. ,,Telur nefndin aðkomu fagnefnda að fjárlagafrumvarpinu yfirborðskennda og að hún þjóni nær eingöngu því markmiði að upplýsa nefndirnar um gerðan hlut. Telur nefndin það til bóta fyrir málaflokkinn ef hún kæmi fyrr og með meira afgerandi hætti að fjárlagavinnunni.``

Undir þetta hljóta fleiri að taka og það geri ég m.a. af reynslu minni úr tveimur nefndum sem ég starfa í á þessum vinnustað, annars vegar umhvn. og hins vegar menntmn.

Ég tek reyndar eftir því að þetta gerist á fleiri stöðum því að í áliti --- og það er álit ekki bréf --- frá samgn. til fjárln. segir svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin vill vekja athygli fjárln. og samgrn. á því að hún telur ástæðu til að móta heildarstefnu í styrkveitingum til aðila sem vinna að uppbyggingu ferðamála hjá einstökum sveitarfélögum eða í tilteknum landshlutum.``

Þarna kveður við sama tón þó ekki sé hann eins gagnrýninn hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og félögum og hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz og hennar félögum.

Það má kannski segja að í þessum tveimur nefndum, umhvn. og menntmn., hafi öfgarnar komið í ljós við meðferð þessara safnliða.

Í umhvn. er tiltekinn safnliður sem heitir því virðulega nafni Ýmis verkefni og kemur að auki í öðrum lið sem heitir Ýmis umhverfisverkefni. Þetta eru sem sé verkefni sem ekki eru umhverfisverkefni, og til þeirra átti að veita 10,5 millj. samkvæmt fjárlagafrv. Þegar nefndin kemur saman að athuga þennan safnlið kemur í ljós að í honum er að langmestu leyti um að ræða framlög til félagasamtaka, til umhverfissamtaka, og þessi framlög eru, samkvæmt sérstökum samningi sem umhvrn. hefur gert, og menn eru sammála um í grunni sínum, við fjölmörg samtök um að þau fái tiltekna úthlutun. Þetta er auðvitað samkvæmt þeirri stefnu sem umhvrn. hefur mótað og nýtur held ég stuðnings allra flokka hér, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, þó ekki hafi menn verið ánægðir og séu ekki sáttir við hvernig umhvrh., því að um ráðuneytið er auðvitað ekki að ræða í þessu, og ég biðst afsökunar á því að hafa nefnt það sem geranda í þessu máli, því að það er auðvitað alltaf ráðherrann. (ÖS: Hver er þolandinn?) Þolandinn, það eru landsmenn, virðulegi forseti, svo ég svari spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um það. En gerandinn er auðvitað ráðherrann en ekki skrifstofa hennar, sem er leiður plagsiður, bæði hjá hæstv. ráðherrum og þingmönnum, að orða sem svo. Það er auðvitað ekki til annars en að ráðherrann fríi sig ábyrgð með því að ýta því yfir á þá stofnun sem er ekkert annað en hennar skrifstofa og á embættismenn sem eru ekkert annað en hennar þjónar og undir beinu boðvaldi hennar. Þannig að ég hafi nú sagt það einu sinni hér á þinginu rækilega, að vísu hafa fáir ráðherrar hlustað á en þó einn hæstv. ráðherra með góðum gáfum og vel máli farinn og vel hugsandi og gerir það aldrei aftur hér, hafi hann gert það áður, að tala um ráðuneyti sem gerendur.

Í liðnum Ýmis verkefni kom sem sé í ljós að umhvrh. hafði ekki ætlast til þess að nefndin skipti einu eða neinu heldur hafði hún sett í þennan lið --- af því að hér er um hæstv. kvenkynsráðherra að ræða --- fjárveitingar samkvæmt samningi sem gerður hafði verið og ekki stóð til að umhvn. hreyfði við á einn eða neinn hátt. Viðbrögð umhvn. voru þau að sinni að vísa þessum safnlið til fjárln. með þeim orðum að hér yrði ákvörðun umhvrh. að standa að sinni.

Það sem hefur síðan gerst með þennan safnlið er að fjárln. treysti sér til þess að hækka hann, meiri hluti fjárln., og hefur sett inn í þessi Ýmis verkefni, sem eru að langmestum hluta framlög til umhverfissamtaka, ágætt framlag til Reykhólahrepps, sem á að fá 3 millj. kr. tímabundið til að fjarlægja gamalt frystihús í Flatey á Breiðafirði og bora eftir vatni og lagfæra brunavarnir. Ég minnist þess ekki að þetta erindi, um að fjarlægja gamalt frystihús í Flatey á Breiðafirði, bora fyrir vatni og lagfæra brunavarnir, hafi komið til umhvn. og raunar, þótt fáir staðir á landinu séu nú fegurri og víðara umhverfi en einmitt á Breiðafirði og í Flatey, verður kannski ekki í sjónhending séð hvaða erindi þetta ágæta verkefni --- fyrir utan að það getur verið í Ýmis verkefni --- á í umhvn. og inn á fjárlagalið umhvrn.

Þarna er sem sé um það að ræða að umhvn. fær í raun og veru ekkert að gera, fær ekki að skipta þeim safnlið sem hún átti að fá að skipta.

Í hinu dæminu, dæmi menntmn., er kannski það gagnstæða. Svo virðist sem nefndin sé orðin að einhvers konar úthlutunarsjóði og er eiginlega þriðji aðilinn sem úthlutar fé til ýmissa lista- og menningarverkefna. Í fyrsta lagi eru ýmsir opinberir sjóðir sem við höfum komið á fót hér í landinu til úthlutunar Ýmissa verkefna. Nefna má t.d. Menningarsjóð sem fékk held ég einar 14 millj. í fyrra eða þar um bil til þess að styrkja bókaútgáfu í landinu. Það var í framhaldi af niðurlagningu þess menningarsjóðs sem hér gaf eitt sinn út bækur. Því var þá heitið að þetta mundi verða mjög sterkur sjóður sem ætti að standa með bókaútgefendum að útgáfu stórrita. Þessar 14 millj. hafa dreifst á u.þ.b. 20 eða 30 staði hverju sinni og verið veitt í ýmsar mjög ágætar bækur. Það eru auðvitað margir sjóðir sem úthluta til menningar- og listaverkefna og íþrótta- og æskulýðsverkefna. Síðan er menntmrn. sjálft mikil úthlutunar- og útungunarstöð fyrir ýmislegt sem menn sækja þar um og nýtur náðar menntmrh. og auðvitað embættismanna hans líka. Það verður að segjast um þá úthlutun að þar er mikið innbyrðis misræmi því að annars vegar erum við með tiltölulega skynuga og faglega úthlutun, gegnsæja og rökstudda, ég nefni leiklistarráð sem hefur verið falið að úthluta til leiklistarinnar í landinu. Hins vegar erum við með langan lista af úthlutunum sem menntmrh. stendur fyrir á hverju ári og m.a. hefur verið beðið um í þinginu, vakið töluverða athygli, þar sem ekki verður séð að fagleg sjónarmið ráði. Grundvöllur úthlutunarinnar er ekki gegnsær og ekki verður séð hvað veldur þeim úthlutunum sem þar fara fram.

Að auki koma svo úthlutanir sem þingið annaðhvort annast eða er látið annast í þessari fjárlagavinnu og í þeim er, hvað mína reynslu varðar, í raun og veru ekkert vit. Verkefnin eru vissulega góð, bæði þau sem fá og þau sem ekki fá, en hin faglega vinna, matsferlið er nánast ekkert og --- ég vil nú ekki nota orðið ,,handahóf`` um þá úthlutun --- en einhvers konar óreiða er á henni og mann grunar því miður að sú óreiða stafi að ýmsu leyti af því að bæði ráðuneyti, flokkar á þinginu og einstakir þingmenn í meiri hlutanum hafi hleypt á þennan lið ýmsum verkefnum sem ekki komast fyrir í fyrsta lagi hjá hinum faglegu sjóðum og í öðru lagi í hinum misfaglegu úthlutunum menntmrn.

[24:30]

Það er satt að segja ekki hægt að hafa þetta svona öllu lengur. Það verður að fást einhver niðurstaða í það hvernig þingið, hvernig hinar einstöku nefndir eiga að vinna að þessari úthlutun, ef þær eiga að gera það, og hvort ekki er eðlilegt að það séu faglegar úthlutanir hjá sjóðum og þar til gerðum úthlutunarstöðum þegar maður lítur yfir þetta, nýliði eins og ég er. Einnig er eðlilegt að ráðherra úthluti eftir sinni pólitísku stefnu og geti þá leitt að því einhvers konar pólitísk rök, og líka er eðlilegt að þegar það kemur til þingsins þá séu ákveðnir safnliðir sem notaðir eru í ákveðnu skyni. Að það sé þá þannig að menn vilji bæta fyrir einhver sérstök slys eða einhverjar uppákomur sem þurfi að laga eða ekki hefur tekist að gera ráð fyrir á fjárlögunum, það sé sem sagt eitthvert sérstakt regluverk sem menn noti í nefndunum til þess að dreifa því fé sem til ráðstöfunar er. En að það sé ekki annaðhvort þannig, eins og hjá umhvn., að ráðherrann sé í raun og veru búinn að eyða peningunum fyrir nefndina eða þá eins og hjá menntmn., að menn dreifi í kringum sig silfrinu --- og ekki er nú mikið silfrið því að þetta eru nokkur hundruð þúsund upp í nokkrar milljónir króna --- án þess að nokkur sjái af hverju það er eða hvaða meiningu það í rauninni hefur.

Það má kannski nefna nokkur dæmi um þessa úthlutun, af því að ég sé að þingheimur bíður og stendur á öndinni eftir slíkum dæmum og einkum hæstv. ráðherra.

Hér er t.d. ágætur liður, Æskulýðsmál, þar eru fimm liðir. Þar vekur athygli að Hvítasunnukirkjan á Íslandi annars vegar og Fíladelfía í Reykjavík fá 3 og 2 milljónir og fengu líka í fyrra, þannig að ekki er um að ræða eitthvert slys, að menn hafi gleymt Hvítasunnukirkjunni, sem munu vera sumarbúðir, eða Fíladelfíu, heldur á Hvítasunnukirkjan á Íslandi og Fíladelfía í Reykjavík að eiga sér fastan samastað í liðnum Æskulýðsmál sem menntmn. er falið að skipta. Þegar um þetta var spurt í menntmn. var fátt um svör satt að segja og ég skil þetta ekki enn þá. Þó að ég efist ekki um að þarna fari fram hið besta starf, þá er mér óljóst hvað Hvítasunnukirkjan á Íslandi og Fíladelfía í Reykjavík eru að gera í einum af fimm atriðum undir liðnum Æskulýðsmál.

Ég vil líka segja að undir Ýmsum íþróttamálum er svolítið furðulegt að sjá liðinn Náttúruböð í Mývatnssveit, sem ætti kannski heima annars staðar og þá kannski einkum undir samgöngumálum eða ferðamálum. Einnig er úthlutun til Frjálsíþróttasambands Íslands og Sundsambands Íslands. Frjálsíþróttasambandið fær 2 milljónir, Sundsambandið 1 milljón og Körfuknattleikssambandið fær hálfa milljón. Þetta er til að þessi þrjú sambönd geti ráðið sér landsliðsþjálfara. En þau voru svo heppin að uppgötva að þau gætu sótt um til menntmn. til þess að fá pening fyrir landsliðsþjálfara. Önnur sambönd innan Íþróttasambands Íslands virðast ekki hafa svo gáfaða menn á sínu framfæri að þeir hefðu vit á því að sækja um til menntmn. til að ráða sér landsliðsþjálfara. Þannig rekst þetta allt hvað á annað og er í raun ekkert vit í slíkum úthlutunum en út af fyrir sig skal ég ekki sjá eftir nokkrum milljónum í landsliðsþjálfara í þessar þrjár greinar í tengslum við Ólympíuleikana.

Síðan er furðulegt að bera saman liði í þessu framlagaplaggi miklu, hér er sérstakur liður sem menntmn. úthlutar og heitir Söfn, ýmis framlög og ýmis stofnkostnaður. Þar eru hin og þessi söfn og gott að þau fái sitt fé þó að mönnum finnist að það ætti að gera kannski á faglegri grunni. Þar er t.d. Samgöngusafnið í Skógum, gott safn í Skógum, fjallar um samgöngumál. Af því að það er safn þá eðlilega setur maður það ekki fyrir fram undir samgrn. En þegar maður flettir svo upp á söfnum í samgrn. þá eru þau til hér. Það er Samgönguminjasafnið á Ystafelli, sem er hið besta safn, Véla- og samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð, en sem sé ekki Samgöngusafnið í Skógum, sem er undir menntmrn. Hvers vegna?

Í liðnum Gestastofur, söfn og markaðsstarf, þar er allt í einu Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hjá samgrn. Ekki efast ég um að það dragi að sér ferðamenn, en af hverju er það ekki í menntmrn.? Það þarf því ekki að lesa nema nokkur dæmi upp úr þessu til að sjá að þessi vinna er öll í skötulíki, tilviljunarkennd í skásta falli, pólitískt handahóf og geðþótti í versta falli.

Ég lofaði ljóði og ætla að stytta mál mitt sem átti upphaflegra að verða mun lengra með því að vinda mér beint í ljóðið af því að það er í þessum sama kafla. Það er hér lesið í tilefni af orðaskiptum hv. þm. Helga Hjörvars og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um skiptingu fjár eftir kjördæmum. Ljóðið heitir: Ýmislegt, ýmis stofnkostnaður 02-999-690. Það er í 15 liðum og ég ætla að lesa 12 þeirra.

Þeir eru svona:

1. Viðgerð á eikarbát á Ísafirði.

2. Viðgerð á vélbát á Ísafirði.

3. Endursmíði vélbáts á Bolungarvík.

4. Uppbygging Húsdýragarðs á Blönduósi.

5. Fræðslu- og menningarverkefnið Grettistak í Húnaþingi og Skagafirði og Ströndum.

7. Viðgerð á bát á Akranesi.

8. Viðgerðir á bát á Akranesi.

9. Byggðasafn á Akranesi.

11. Kaup á bát á Hnjóti.

12. Vélsmiðja á Þingeyri.

13. Kirkja í Tálknafirði.

14. Setur í Borgarbyggð.

Það er stórt orð Hákot og það er mikið kjördæmi Norðvesturkjördæmi, virðulegur forseti.

(Gripið fram í: Þetta er órímað ljóð.) (Gripið fram í: Og ekki stuðlað?) Nei, en það hefur mikla hrynjandi.