2003-11-26 01:13:21# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:13]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða stíl hv. þm. var að lesa hér yfir okkur en það er a.m.k. einhver stíll sem ekki á við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag. Nú veit ég ekki hvað hv. þm. hefur fylgst mikið með en ég tók eftir einni afar sérkennilegri fullyrðingu í flutningi hv. þingmanns um að Samf. væri helst að kvarta yfir því að of miklu fjármagni væri varið til heilbrigðisþjónustu. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég held að rétt væri fyrir hv. þingmann að lesa yfir nál. 1. minni hluta fjárln. og kanna hvar hv. þm. finnur stoðir fyrir þessari fullyrðingu sinni. Þess vegna segi ég það, frú forseti, að ég átta mig bara hreinlega ekki á því yfir hverjum hv. þm. var að lesa stíl sinn.

Það er alltént ljóst varðandi heilbrigðismálin, ef við rifjum aðeins upp hvernig staðan er þar, að við blasir, og það er meginvandi í ríkisfjármálum þjóðarinnar, að ríkisstjórnina skortir stefnu í heilbrigðismálum. Þetta er staðfest m.a. af þeirri hlutlausu stofnun sem heyrir undir Alþingi og heitir Ríkisendurskoðun. Í síðustu ársskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að skortur á stefnu stjórnvalda skapi mestan vanda í heilbrigðisþjónustunni. Og meðan sú stefna er ekki til staðar eru afleiðingarnar ljósar og við sjáum það á hverju einasta ári með því að stofnanir skortir fé vegna þess að það er ekki áætlað nægt fé miðað við þá þjónustu sem þar er rekin. Það er kannski lykilatriðið að þeirri spurningu verði svarað hvaða þjónustu við viljum hafa á þessum stofnunum. Á meðan þeirri spurningu er ekki svarað mun engin lausn finnast í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Frú forseti. Hv. þm. vék einnig að því að hann kannaðist ekki við nein svik á kosningaloforðum. Ja, gott er, frú forseti, að vera ungur að árum þó að ég héldi að því fylgdi ekki að gleyma svo snarpt öllu því sem lofað hefði verið en vegna þess að Framsfl. orðaði ekki hlutina nákvæmlega eins og Sjálfstfl. getur það átt við í einstaka málaflokki. En ég spyr hv. þingmann hvort hann sé líka búinn að gleyma loforðunum sem gefin voru í húsnæðismálum fyrir kosningar í vor.