2003-11-26 01:15:51# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:15]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig eiginlega ekki á því andsvari sem hv. þm. fór hér upp með, því ég veit ekki betur, og hef nú einungis fylgst með fjölmiðlum, ég sat reyndar ekki þann ágæta landsfund sem Samfylkingin hélt á dögunum, en þar hafi formaður Samfylkingarinnar talað um markaðsvæðingu í heilbrigðismálunum, að það vantaði skilvirkni í heilbrigðiskerfið og við værum að verja of miklum peningum í heilbrigðiskerfið í dag. Þetta er það sem almenningur hefur skilið. Ég held að það sé þá vandi Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks ef hún meinar allt annað en það sem íslenskur almenningur leggur skilning í.

Hvað varðar önnur kosningaloforð sem við settum okkur varðandi húsnæðismálin þá setti hæstv. félmrh. Árni Magnússon af stað strax nú í vor eftir kosningar starfshóp til þess að móta 90% lánin því það er ekki sama hvernig það er gert. Og það ætti ábyrgur stjórnmálamaður líkt og hv. þm. Einar Már Sigurðarson að vita að í slíkar framkvæmdir verðum við að fara með miklum varhuga og við verðum að vanda okkur í því með öllum hagsmunaaðilum.

Hókus-pókus lausnir Samfylkingarinnar gilda ekkert í 90% lánunum frekar en í heilbrigðismálunum. Við viljum vanda okkur og við viljum framkvæma það sem við segjum af ábyrgð og það verður gert. Sú vinna er í fullum gangi. Og það er alveg ljóst að það verður staðið við 90% lánin af hálfu Framsfl. Það er á hreinu.