2003-11-26 01:17:43# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:17]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess að mín mínúta verði álíka löng og hjá hv. þm. þannig að ég mun gefa mér þann tíma sem hv. þm. fékk hér í þessa einu mínútu.

Hv. þm. fullyrti að hann hefði ekki setið landsfund Samfylkingarinnar og kemur mér það nú ekki á óvart, en það var alveg augljóst af málflutningi hans að hann hefur ekki heldur heyrt neitt af fréttum frá landsfundinum. Það sem var niðurstaðan þar var að við töldum að þessi stóri málaflokkur, heilbrigðismálin, þyrfti sérstakrar skoðunar við. Við ætlum að gefa okkur a.m.k. ár í það að skoða málaflokkinn til þess að móta ákveðnar tillögur. Hv. þm. talaði um að Framsfl. vildi vanda sig við kosningaloforðin. Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um varðandi heilbrigðismálin, við viljum vanda okkur. Við viljum hins vegar ekki loka öllum dyrum þegar við skoðum málin. Við ætlum að skoða þau opnum augum og finna þær lausnir sem bestar eru. En hv. þm. nefndi kosningaloforð og ég verð því að spyrja hv. þm. að því: Var kosningaloforð Framsfl. líka það að draga þrjá daga af atvinnuleysisbótum? Vegna þess að þá þurfti ekki að vanda sig mikið við þá tillögu. Hún lá fyrir strax.