2003-11-26 01:37:04# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:37]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta er orðin mjög ítarleg umræða um frv. til fjárlaga við 2. umr. og hefur svo sem ýmislegt komið fram.

Varðandi þá umræðu sem hefur orðið um rekstur ríkissjóðs og þær áherslur sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur í þeim efnum vil ég víkja að þeirri umsögn sem allmörg launþegasamtök hafa sent um fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir. Hér er ályktun miðstjórnar ASÍ sem ég vitnaði til í ræðu minni í morgun. Þar ítrekar miðstjórn ASÍ að hún gagnrýni harðlega það óréttlæti og þá auknu misskiptingu sem einkenni fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2004. Miðstjórn ASÍ telur ástæðu til að árétta afstöðu ASÍ um nauðsyn þess að mótuð verði víðtæk sátt um heildstæða og samtvinnaða stefnu í atvinnumálum og félagsmálum. Sú stefna sem birtist hér í fjárlagafrv., segir ASÍ, verður aldrei grundvöllur til sátta á vinnumarkaðnum.

Ég vil líka hér vitna til þess sérstaklega sem hefur verið til umræðu, þ.e. skerðingar atvinnuleysisbótanna.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, 9. þm. Norðaust., var að ræða um áherslur Framsfl. í þessu fjárlagafrv. Framsfl. var á árum áður félagshyggjuflokkur og stóð vörð um jöfnuð og velferð í samfélaginu. Nú virðist vera þar annað upp á teningnum því megináherslurnar sem birtast í þessu fjárlagafrv. eru þær að það á að skerða framlög til atvinnuleysisbóta, skerða rétt fólks til bóta ef það verður svo óheppið að missa atvinnuna.

Meira að segja, virðulegi forseti, hefur fjöldi framsóknarmanna og framsóknarfélaga um allt land ályktað gegn þessari stefnu Framsfl., fólk í Norðaust., á Húsavík, launanefnd Framsfl. Það fólk spyr: Hvað er Framsfl. að fara eiginlega í velferðarmálum? Ef þetta eru þær áherslur sem Framsfl. leggur fram við fjárlagagerðina, að skerða rétt atvinnuleysingja, þeirra sem þurfa að leita sér sjúkrahjálpar, kaupa sér lyf og þeir látnir greiða hærri hlut í lyfjakostnaði, er engin furða að framsóknarmönnum á Húsavík, á öllu Norðausturlandi, í Þingeyjarsýslu, á Akureyri, blöskri hin nýja stefna Framsfl. í velferðarmálum. Er það furða? Ja, mér blöskrar.

Það væri virkilega ástæða til þess að hinir velferðarsinnuðu þingmenn Framsfl., ef einhverjir eru í alvörunni, beittu sér innan þess flokks til þess að reyna að sveigja hann aftur inn á braut félagshyggju frá þessari hörðu frjálshyggjustefnu sem flokkurinn eða stjórn flokksins, sá sem stýrir ferð í Framsfl., keyrir núna flokkinn inn á. (Gripið fram í: Of seint, held ég.) Það er kannski of seint og þá væri rétt fyrir þá framsóknarmenn sem telja sig enn þá sanna og öfluga félagshyggjumenn að snúa sér beint að því að styðja Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð sem mun halda félagshyggjusjónarmiðunum á lofti og berjast fyrir öflugri og sterkri velferð þjóðfélagsins.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði síðan að víkja að eru nokkrar brtt. sem við leggjum til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, við 2. umr. fjárlaga.

Þá er fyrst að taka til brtt. á þskj. 447 þar sem lagt er til að Veiðimálastofnun fái 5 millj. kr. á næsta ári til þess að kortleggja erfðir íslenska laxins. Í ljósi þeirrar umræðu sem var hér um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar um heimild til innflutnings á laxi og öðrum fiski til landsins er afar brýnt að við getum komið okkur upp eftirlitskerfi sem reynir að koma í veg fyrir blöndun eða óheppileg áhrif þessara mála. Þess vegna leggjum við þetta til. Stóraukið laxeldi við strendur landsins kallar á meiri og betri upplýsingar sem aflað verður með rannsóknum. Auknar skyldur eru settar á Veiðimálastofnun í þessum efnum með nýsamþykktum breytingum á lögum um lax- og silungsveiði. Þekkingu skortir á ýmsu er lýtur að samspili laxeldis og náttúrulegra laxastofna. Má þar nefna betri þekkingu á farleiðum laxa, lifitölu og farleiðum laxa sem sleppa úr kvíum, svo og erfðafræði íslenska laxins. Það er mikilvægt að kortleggja erfðir íslenska laxins, þ.e. stofnana í laxveiðiánum og í laxeldinu. Þetta er unnt að gera í dag með greiningu erfðaefnis, DNA-greiningum, og slíkar rannsóknir yrðu ekki ýkja kostnaðarsamar. Þetta mætti gera á þremur árum með 5 millj. kr. framlagi á ári. Með gagnabanka sem hefur að geyma upplýsingar um erfðamörk laxins er hægt að rekja lax til uppruna síns, t.d. fisk sem er sleppt úr laxeldi. Þá nýtist þetta einnig við rannsóknir á laxi í sjó.

Veiðimálastofnun hefur hafið rannsóknir á greiningu erfðamarka lax í Elliðaánum og er því grunnvinna unnin og allar aðferðir þekktar og komnar í notkun hér á landi. Það er afar mikilvægt, virðulegi forseti, að þessum rannsóknum verði hleypt af stokkunum til þess að búa okkur undir að geta merkt og þekkt laxinn eftir uppruna sínum, m.a. í tengslum við aukið laxeldi hér.

Þá er brtt., virðulegi forseti, um að veita nokkurt fjármagn til Félags kræklingabænda til kræklingaræktar. Kræklingarækt er hafin á nokkrum stöðum á landinu, sérstaklega í Arnarfirði, Eyjafirði og Mjóafirði en örfáir aðrir staðir eru einnig með lítils háttar kræklingarækt. Þessi búgrein vex hægt úr grasi og brýnt er að fá stuðning við hana. Hún getur orðið að verulegum búdrýgindum á þeim stöðum þar sem aðstæður geta verið heppilegar. Niðurstöður og fyrstu rannsóknir sýna að ræktun á kræklingi getur verið arðsöm atvinnugrein ef vel tekst til. Það er afar mikilvægt að hlúa að þessari sprotaatvinnugrein og þess vegna leggjum við til að veittar verði 10 millj. kr. til Félags kræklingaræktenda til að styrkja frumsporin í þessari atvinnugrein.

[25:45]

Þá leggjum við til að verði veitt fjármagn til þess að styðja betur við upplýsingamiðstöðvar ferðamála á landsbyggðinni. Það eru reknar 42 upplýsingamiðstöðvar en 10 þeirra eru reknar og fá stuðning frá Ferðamálaráði. Sá stuðningur er aðeins um 17 millj. kr. á ári. Við leggjum til að veitt verði aukið fjármagn til þess að megi reka nokkrar af þessum upplýsingamiðstöðvum ferðamála á heilsársgrundvelli út um land. Þessar upplýsingamiðstöðvar eru afar mikilvægur grunnþáttur í að efla þessa atvinnugrein og með því að gera þær öflugri getur ríkissjóður styrkt og veitt þessari nýju atvinnugrein ferðamála og ferðaþjónustu stuðning, einmitt í gegnum upplýsingamistöðvar ferðamála. Því leggjum við til, virðulegi forseti, að veittur verði aukinn stuðningur við starfsemi upplýsingamiðstöðva í ferðamálum.

Þá mæli ég fyrir brtt. á þskj. 452, lið 14-211 Umhverfisstofnun, um sérstakt átak til fækkunar á villimink og að halda refastofninum innan nauðsynlegra stærðarmarka. Við sem þekkjum lífríkið út um land, þekkjum hve slæm áhrif og afleiðingar villiminkurinn hefur á lífríkið víða um land, við vitum að hann á þar alls ekki heima. Þess vegna er mjög mikilvægt að gera átak í því að hefta útbreiðslu minksins og fækka honum eins og kostur er. Hann er aðskotahlutur í íslensku lífríki. Þar sem tekist hefur að friða landsvæði fyrir mink hefur fuglalíf vaxið á ný, mófuglinn hefur komið aftur og fiskur í læki. Þetta þekkjum við.

Hæstv. umhvrh. hefur í orði verið að tala um að gera átak í að fækka eða eyða mink. En til þess að svo megi verða þarf fjármagn og því leggjum við til að það verði veitt. Ríkið ber ábyrgð á innflutningi á mink og þeim skaða sem hann veldur og er skylt að takmarka þann skaða eins og nokkur kostur er.

Auk þess er þetta verulegur fjárhagsbaggi á mörgum sveitarfélögum sem verða víða æ fámennari og stór lönd að verja fyrir ágangi minks. Þess vegna er mikilvægt að á þessu verði tekið með skipulegum hætti. Því er hér með hvatt til þess að það verði gert sérstakt átak upp á 50 millj. kr. til þess að fækka villimink verulega og halda refastofninum innan eðlilegra stærðarmarka.

Virðulegi forseti. Hér er brtt. á þskj. 453, liður 02-299 Háskóla- og rannsóknastarfsemi, um byrjunarfjárveitingu til stofnunar Háskóla Vestfjarða. Umfangsmikið símenntunar- og háskólastarf er nú í uppbyggingu á Ísafirði og vinnur Fræðslumiðstöð Vestfjarða, ásamt öðrum heimaaðilum, gott brautryðjendastarf. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn hafa unnið ötullega að því að bjóða fram háskólanám með fjarkennslu. Á Ísafirði eru miklir möguleikar til að mynda sterka kennslustofnun sem mótar sérstöðu sína á grundvelli atvinnulífs og framtíðarmöguleika svæðisins. Hún gæti jafnframt tekið að sér að stýra rannsóknum, vöktun og nýtingu á fjölbreyttum náttúruauðlindum Vestfjarða og hafinu umhverfis. Miðstöð veiðarfærarannsókna og kennsla í gerð og notkun veiðarfæra væri vel staðsett á Ísafirði svo dæmi sé nefnt. Reynslan hefur sýnt að litlar stofnanir í sterkum og nánum tengslum við auðlindir, atvinnulíf og menningu heimahéraðs geta orðið öflugar ef þær fá til þess sjálfræði og stuðning. Hér er því lagt til að veita 15 millj. kr. til að vinna að stofnun Háskóla Vestfjarða á Ísafirði.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til raforkujöfnunar í landinu en gríðarlegt misrétti er fólgið í verði á raforku eftir búsetu. Það er svo mikið misrétti, að það er kannski það sem skerðir samkeppnisstöðu bæði atvinnulífs og búsetu hvað mest hér á landi. Þeir sem búa við verstar aðstæður þurfa kannski að borga þrefalt, fjórfalt raforkuverð miðað við þá sem búa við bestar aðstæður. Við erum ein þjóð og þessi orka er sameign okkar allra og hún á því að deilast út með þeim hætti að allir sitji við sama borð. En því miður, svo er ekki.

Við þekkjum öll hvílíkt óréttlæti er í raforkuverði eftir því hvar fólk býr. Samkvæmt áætlun Rariks og þeirra sem um þessi mál hafa fjallað þarf í kringum 700 millj. til þess að geta veitt rafmagn á sama verði um allt land. Ég legg áherslu á, virðulegi forseti, að þetta er eitt mikilvægasta atriðið til þess að jafna samkeppni í atvinnulífi og búsetu í landinu.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég mæla fyrir brtt. á þskj. 462, lið 08-204 Lífeyristryggingar. Ég legg til að við lið 1.15 Örorkulífeyrir, bætist 500 millj. kr. Hér er gerð tillaga um að staðið verði við samkomulag sem gert var á milli ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins um aukinn lífeyri til þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og koma á til framkvæmda 1. janúar 2004. Fjárhæð þessi er til viðbótar þeim 1 milljarði kr. sem er í frumvarpinu en komið hefur í ljós í umræðunni að til þess að standa við samkomulagið þarf 1,5 milljarða kr. eða 500 millj. kr. til viðbótar.

Virðulegi forseti. Ég tel það siðferðislega skyldu okkar að standa við það samkomulag sem ríkisstjórnin og Öryrkjabandalagið gerðu í þessu máli. Við vorum öll stolt af því að ná þessum áfanga, þessum samningi, þökk sé baráttu Öryrkjabandalagsins að taka á lífeyri þess fólks sem verður öryrkjar snemma á lífsleiðinni, taka það sérstaklega fyrir og berjast fyrir réttindum þess. Þar hefur Öryrkjabandalagið virkilega náð árangri og sá samningur sem gerður var í vor var tímamótasamningur sem við fögnuðum öll. Því ber okkur skylda til þess hér á Alþingi að við þennan samning verði staðið refjalaust. Þess vegna leggjum við til, virðulegi forseti, að til viðbótar við það fjármagn sem er í liðnum bætist 500 millj. kr. svo að samningurinn verði uppfylltur eins og efni standa til, eins og samþykkt var.

Virðulegi forseti. Ég hef mælt fyrir þeim málum sem ég vildi gera skil í lokaumferðinni. Fjárlagafrv. fer að lokinni atkvæðagreiðslu á morgun til 3. umr. í fjárln. Hv. formaður fjárln. hefur lýst því yfir að einstakir liðir frv. eru opnir til meðferðar á milli 2. og 3. umr. Þar eru fjölmargir liðir sem þurfa endurskoðunar við áður en málið kemur til 3. umr. Ég mun ásamt öðrum fjárlaganefndarmönnum taka á þeirri vinnu, en ég á sæti í fjárln. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð.