Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 13:35:13 (2136)

2003-11-26 13:35:13# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Einar Már Sigurðarson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú fer fram atkvæðagreiðsla eftir 2. umr. um fjárlög 2004. Það er ljóst að hér er mikill fjöldi tillagna, að mestu leyti frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárln. Það er ljóst að sá meiri hluti ber ábyrgð á þeim. Minni hluti fjárln. og stjórnarandstaðan á Alþingi hefur ekki haft aðgang að öllum þeim upplýsingum sem óskað hefur verið eftir. Vandi okkar er því mikill við að meta hverja tillögu fyrir sig. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram nokkrar tillögur til að vekja athygli á áherslum okkar á táknrænan hátt. Við munum að vísu kalla nokkrar þeirra aftur til 3. umr. en atkvæðagreiðsla verður um sumar þeirra.

Við munum sitja hjá við atkvæðagreiðslur um tillögur meiri hlutans að undanskilinni tillögu frá forsætisnefnd Alþingis sem er samþykkt einróma af þeirri nefnd. Vegna sérstöðu tillagna Alþingis munum við styðja þá tillögu.

Herra forseti. Við munum að öðru leyti að mestu sitja hjá og lýsum því yfir að þessar tillögur, með þeim skorti á upplýsingum sem áður var nefndur, eru algerlega á ábyrgð meiri hluta ríkisstjórnarinnar á þingi. Það er eðlilegt að sumir hv. þm. meiri hlutans flissi við slíkar aðstæður.