Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 13:43:51 (2141)

2003-11-26 13:43:51# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi tillaga gengur út á að lækka arðgreiðslur opinberra stofnana í ríkissjóð um 1 þús. millj. kr. Sú lækkun komi öll fram hjá Landssímanum hf. sem verði í staðinn falið að ráðast í átak til að bæta fjarskiptakerfið og tryggja öllum landsmönnum aðgang að fullnægjandi fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum án tillits til búsetu.

Tvennt er að okkar mati brýnast. Annars vegar að ljúka uppbyggingu GSM-kerfisins um allt land og þétta það net, bæði sem öryggistækis og almenns samskiptatækis. Hins vegar að tengja staði við ljósleiðarann og efla gagnaflutninga og fjarskiptakerfið um byggðir landsins þannig að allir landsmenn geti notið fyrsta flokks þjónustu að því leyti. Við teljum að þetta sé brýnt mál sem eigi að drífa í og nærtækt sé að gera það með þessum hætti, að létt verði að nokkru arðgreiðslum af Landssímanum á meðan hann fjárfestir í þessum verkefnum.