Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 13:59:07 (2147)

2003-11-26 13:59:07# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Tillagan gengur út á að leggja fé til jöfnunar ferðakostnaðar íþróttafélaga innan lands. Breytingartillaga þessi er mjög í samræmi við till. til þál. um ferðasjóð íþróttafélaga sem liggur fyrir þinginu og er flutt af hv. þm. Hjálmari Árnasyni, Birki J. Jónssyni, Dagnýju Jónsdóttur, Guðjóni Hjörleifssyni, Kristjáni L. Möller, Magnúsi Stefánssyni og Sigurlín Margréti Sigurðardóttur. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkennd mót. Úthlutun fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.``

Hér gefst bæði þessum hv. þingmönnum og öðrum þeim sem eru sammála innihaldi tillögunnar og vilja að á fjárlögum sé fé til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga tækifæri til þess að láta ekki sitja við orðin tóm og gagnslausan tillöguflutning ár eftir ár heldur láta verkin tala.