Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:04:55 (2149)

2003-11-26 14:04:55# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi tillaga gengur út á að settir verði fjármunir í að búa til framkvæmda- og kostnaðaráætlun fyrir umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var á þingi á síðasta ári.

Reykvíkingar hafa sýnt fram á það að með öflugu starfi að umferðaröryggismálum hefur slysum og alvarlega slösuðum í umferðarslysum í Reykjavík verið að fækka. Það er vegna þess að málaflokkurinn hefur verið settur í forgrunn og lögð áhersla á að setja fjármuni í að lagfæra svarta bletti meðal annars. Sambærileg umferðaröryggisáætlun þarf að vera í gildi á vegum íslenska ríkisins. Slík áætlun er í gildi. Alþingi hefur samþykkt hana en það hafa ekki enn verið settir fjármunir í að fylgja henni á þann öfluga og metnaðarfulla hátt sem nauðsynlegt er. Þær 25 millj. kr. sem hér eru lagðar til eru til þess ætlaðar að umferðaröryggisáætlunin sem við í þessum sal höfum þegar samþykkt komist til framkvæmda. Ég segi já.