Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:09:41 (2150)

2003-11-26 14:09:41# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Hér er á þskj. 427 í 8. tölul. um að ræða tillögu um að lagðar verði 400 millj. kr. í fjárlagaliðinn 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður.

Tillagan er í raun þríþætt. Þar er um að ræða 100 millj. kr. vegna þeirrar fáheyrðu tillögu ríkisstjórnarinnar að taka upp þriggja daga biðtíma eftir þeim lágmarksbótum sem atvinnuleysisbæturnar eru og ráðast sérstaklega að kjörum atvinnulausra á næsta ári. Einnig er um að ræða 200 millj. kr. til að færa atvinnuleysisbætur upp til samræmis við launavísitölu á næsta ári. Við teljum að atvinnuleysisbætur hafi svo lengi aðeins fylgt verðlagi að þær séu orðnar hættulega lágar og þurfi að koma til sérstakrar skoðunar á þessu kjörtímabili enda eru þær orðnar innan við 80 þús. kr. Þær eru t.d. langt undir örorkubótum og farnar að hvetja til þess að atvinnulausir leiti í önnur stuðningskerfi.

En loks, sem er ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að tillagan er ekki kölluð til 3. umr., er hér um að ræða 100 millj. kr. vegna desemberuppbótar.