Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:11:27 (2151)

2003-11-26 14:11:27# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er lagt til að samtals bætist 310 millj. kr. við fjárheimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Það er annars vegar til að taka út þá smánarlegu skerðingu á atvinnuleysisbótum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að standa fyrir, m.a. með því að hætta þátttöku í að tryggja fastráðningarkjör fiskvinnslufólks upp á 100 millj. og greiða ekki bætur þrjá fyrstu daga atvinnuleysis. Einnig leggjum við til að um 140 millj. kr. verði til ráðstöfunar til að greiða atvinnulausum, sem eru væntanlega um 4.000 um þessar mundir, desemberuppbót í hlutfalli við atvinnuleysi þeirra á árinu eins og almennt vinnufólk á launamarkaði kemur til með að fá, 37 þús. kr. í sérstaka desemberuppbót í jólamánuðinum miðað við fullt starf á árinu. Við teljum öll rök fyrir því að atvinnulausir, sem eru á mun lægri bótum en nemur lægstu umsömdu launum, njóti þessara kjarabóta í jólamánuðinum eins og aðrir.

Reyndar leyfi ég mér í lokin, virðulegi forseti, að lýsa sérstakri skömm á frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.