Barnaverndarmál

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:19:16 (2172)

2003-11-26 15:19:16# 130. lþ. 35.2 fundur 327. mál: #A barnaverndarmál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli í sölum Alþingis. Ég hef á undanförnum mánuðum viðrað um það hugmyndir á opinberum vettvangi hvort rétt kunni að vera að gera breytingar á meðferð barnaverndarmála, einkum í ljósi þess hversu smá starfssvæði barnaverndarnefnda eru og hættunnar á skorti á faglegum vinnubrögðum. Til að bregðast við þessu mætti sjá fyrir sér flutning á málaflokknum frá sveitarfélögum til ríkisins eins og hv. þm. rakti hér. Einnig mætti fara aðra leið, þá er ég hyggst rekja í svari mínu.

Á undanförnum árum hafa komið upp einstök mál hjá barnaverndarnefndum sem vakið hafa upp spurningar um hvort núverandi fyrirkomulag með þeim fjölda barnaverndarumdæma sem hér eru hafi gengið sér til húðar. Ekki virðist hægt að tryggja nægilega faglega þekkingu við vinnslu erfiðra barnaverndarmála í héraði og þar af leiðandi eru dæmi um það að í sveitarfélögum hafi átt sér stað málsmeðferð sem fullnægir ekki þeim kröfum sem dómstólar gera. Auknar kröfur um formlega meðferð mála og sterkar kröfur okkar tíma um mannréttindi og réttaröryggi gera það að verkum að þegar barnaverndarmál er komið á ákveðið stig, þ.e. um er að ræða alvarleg og þung barnaverndarmál sem fela jafnvel í sér þvingunarráðstafanir, eru mál komin í þann farveg að þau falla illa að grunnhugsunum samvinnu og samráðs sem einkennir félagsþjónustu og stuðningsúrræði barnaverndar.

Í Reykjavík hefur verið farin sú leið að skilja erfiðu málin frá félagsþjónustunni. Sterkar málefnalegar ástæður eru til að aðskilja þetta tvennt. Með því að færa þyngstu málin til ríkisins væri hægt að tryggja samræmd vinnubrögð um allt land, fagleg vinnubrögð sem standa undir þeim formlegu málsmeðferðarkröfum sem gerðar eru í mannréttindasáttmála Evrópu og barnaverndarlögunum.

Áhersla skal lögð á það að væri þessi breyting gerð væri ekki verið að flytja öll barnaverndarmál til ríkisins heldur einvörðungu þyngsta hluta málanna sem fela í sér beitingu þvingunarráðstafana og aðrar aðgerðir sem ganga gegn vilja þeirra sem afskiptin beinast að.

Meginmarkmið barnaverndar er að styðja fjölskylduna. Sá stuðningur, sú almenna þjónusta gæti verið áfram hjá sveitarfélögunum. Aðeins væri verið að flytja þyngstu málin til ríkisins en ef af því verkefni verður þarf að endurskoða barnaverndarlögin og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga samhliða og sjá til þess að skýr skil séu á milli þessara laga sem bæði hafa það markmið að styðja fjölskylduna. Nú er um talsverða skörun milli þessara laga að ræða hvað varðar stuðning við fjölskylduna.

Athygli er vakin á því að með þeirri leið að fela miðlægu valdi, þ.e. ríkinu, allra þyngstu málin er aðeins verið að tala um lítið brot af barnaverndarmálum. Á árinu 2002 bárust barnaverndarnefndum landsins alls um 4.400 tilkynningar. Forsjársviptingarmál, allra alvarlegasti hlutinn af þyngstu barnaverndarmálunum, eru 5--10 á ári. Það er ekki verið að tala um að flytja þessi aðeins rúmlega 4 þúsund mál til ríkisins, flest málanna yrðu með þessari leið áfram hjá sveitarfélögunum.

Svo horft sé út fyrir landsteinana í þessum efnum skal bent á að í Noregi mun þann 1. janúar á næsta ári ganga í gildi nýtt fyrirkomulag varðandi rekstur meðferðarheimila fyrir börn og unglinga, svo og annarra sértækra úrræða. Þjónusta þessi sem nú er á vegum fylkiskommúnanna færist til fimm svæða undir stjórn einnar ríkisstofnunar sem heyrir undir barna- og fjölskylduráðuneytið. Helstu markmið með þessari breytingu í Noregi er að tryggja betri faglega vinnslu og fjárhagslega stjórn á barnaverndarmálum, að tryggja jafnræði barna og unglinga sem þurfa á þjónustunni að halda óháð því hvar í landinu þau búa, þróa betri samvinnu milli sveitarfélaga í barnaverndarmálum, að tryggja gæði í öllu vinnsluferli þessara mála og vinna að faglegri framþróun í barnavernd.

Af framangreindu má sjá að verið er að auka miðlæg afskipti af barnaverndarmálum í Noregi. Það er ekki verið að færa barnaverndarstarfið sjálft til ríkisins heldur eingöngu sértæk úrræði og ég get getið þess, hæstv. forseti, að ég hef þegar viðrað það við kollega mína í Noregi að fá að kynna mér sérstaklega þessar breytingar sem frændur okkar þar eru að gera.

Í Bretlandi er til athugunar hvort stíga eigi það skref að aðskilja þyngstu barnaverndarmálin frá öðrum barnaverndarmálum og gera erfiðustu málin að málefnum ríkisins, í Danmörku hefur verið lögð fram tillaga í þinginu um þetta efni einnig og þessu mun svipað farið í Bandaríkjunum. Raunar tel ég að ég viti það rétt að þar eru öll barnaverndarmál á vegum ríkis og fylkja en ekki sveitarfélaga. Það er því óhætt að segja, að í þeim heimshluta sem við horfum til, Íslendingar, er þróunin sú að aðgreina hin venjulegu barnaverndarmál sem unnin eru í samvinnu við foreldra frá þungu málunum þar sem beita þarf þvingunarúrræðum. Þetta er nokkuð sem ég tel rétt að vekja athygli á og eiga umræðu um.