Barnaverndarmál

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:25:39 (2174)

2003-11-26 15:25:39# 130. lþ. 35.2 fundur 327. mál: #A barnaverndarmál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GÖg
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það er afar mikilvægt að hafa í huga að þessu var breytt. Núna fara öll þyngstu málin fyrir dómstólana. Það er búið að taka úrskurðarvaldið frá barnaverndarnefndum. Og það er mjög mikilvægt ef skipa á nýja nefnd eða eitthvað slíkt að fara að vinna í þessu. Ég hef alla tíð sagt að þetta eigi að vera eins og með barnalögin. Þar er sifjalaganefnd starfandi allan ársins hring með þau mál. Það á að vera eins með svona stór barnaverndarlög. Það væri því mjög gott ef hæstv. ráðherra kæmi með slíka breytingu, þannig hefðum við alltaf þetta teymi sérfræðinga sem kannaði líka framkvæmd löggjafarinnar og þá galla sem eru á henni þannig að hægt væri að koma með breytingar á henni.

Ég vil líka aðeins nefna af því að ég þekki afar vel til í Noregi, þar er auðvitað mjög margt í bígerð, ekki hvað síst þá umræðu að barnaverndarlögin í Noregi standa ekki með börnum. Þau standa fyrst og fremst með foreldrum og kynforeldrum gegn fósturforeldrum þannig að það er umræða sem er á fljúgandi fart í Noregi.

Það er líka annað í sambandi við þau lönd sem hæstv. ráðherra nefnir hér að þar er einu stjórnsýslustiginu fleira. Það eru fylkin. Hér erum við bara með sveitarfélög og ríki og það er allt annað þegar þetta er svæðabundið og menn geta unnið með mál þannig. Þess vegna er mjög erfitt að ímynda sér í því stjórnskipulagi sem við höfum að við getum í rauninni flutt slíka hluti yfir til ríkisins. Það verður mjög erfitt að vinna það faglega. Öll fagþekkingin er í rauninni líka á sveitarstjórnarstiginu. En, eins og ég segi, réttaröryggið þurfum við að tryggja, við gerðum það í þessum barnaverndarlögum. Ég skora á hæstv. ráðherra að skipa nefnd sem er jafnstæð sifjalaganefnd sem skoðar barnaverndarlögin jafnóðum og kemur með breytingartillögur til þingsins og heim í hérað, líka varðandi verklagsreglur.