Barnaverndarmál

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:27:36 (2175)

2003-11-26 15:27:36# 130. lþ. 35.2 fundur 327. mál: #A barnaverndarmál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem ég tel mikilvæga. Það er rétt að það er stutt síðan við breyttum þessum lögum. En hef ég lýst þeirri skoðun minni að það kunni að vera nokkrum vafa undirorpið hvort upptökusvæði barnaverndarnefndanna sé nægilega stórt þrátt fyrir að um 1.500 manna íbúasvæði sé að ræða og erfiðustu barnaverndarmál sem upp koma kalla á mikla faglega þekkingu, eins og við vitum, og þetta eru sennilega viðkvæmustu mál sem við eigum við á hverjum tíma.

Ég mun að sjálfsögðu taka áskorun hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur til alvarlegrar athugunar og lýsi því hér yfir, hæstv. forseti, að mér þætti vænt um að geta sótt í hennar mikla reynslubrunn þegar að því kemur.