Málefni geðsjúkra

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:28:45 (2176)

2003-11-26 15:28:45# 130. lþ. 35.3 fundur 288. mál: #A málefni geðsjúkra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Frú forseti. Fyrir skömmu voru lagðar fram tvær fyrirspurnir um málefni geðsjúkra. Sú sem fyrr kom fram var frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur sem bar fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um úrræði fyrir alvarlega veika geðsjúka einstaklinga og hvað liði áformum um öryggisdeild fyrir geðsjúklinga. Í fyrirspurn hv. þm. kom fram og mátti skilja svo hér í umræðunum að hv. þm. væri að tala um öryggisdeild fyrir sakhæfa einstaklinga og var þá að vísa til uppbyggingar að Sogni sem í dag hýsir bæði ósakhæfa og sakhæfa geðveika einstaklinga. Ég tel að það sé ástæða til að spyrja þeirra spurninga sem koma fram í fyrirspurn minni:

1. Hvað líður áformum um færanlegt teymi fagfólks til að sinna geðsjúkum?

2. Hvað líður áformum um lokaða geðdeild fyrir erfiðustu sjúklingana?

Það er alveg ljóst að sökum orðanotkunar eða hvernig við skilgreinum geðdeild sem lokaða, öryggisdeild eða réttargeðdeild, þá erum við hugsanlega að nota þessi orð stundum fyrir þjónustu við sömu einstaklingana eða hugsanlega líka yfir mismunandi hópa. Ég tel að fyrirspurn minni sé í raun og veru svarað í fjárlagafrv. sem við höfum verið að fjalla um í dag því að það er alveg ljóst að það er búið að samþykkja að verja skuli 11 millj. kr. til færanlegs fagteymis fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga á árinu 2004, það eru 10 millj. á þessu ári, og það sé áætlað að setja 64 millj. í lokaða deild fyrir alvarlega geðsjúka sem þurfa mikla gæslu. En það kemur líka fram í frv. að þetta sé fyrir sakhæfa geðsjúka einstaklinga. Því vil ég bera fram þá spurningu og óska eftir því að hæstv. ráðherra skilgreini það betur, hvaða sjúklingar eru það sem Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er ætlað að þjónusta í Arnarholti? Eru það sakhæfir einstaklingar sem hafa leiðst út í afbrot eða á að byggja þarna upp deild fyrir þá sem eru núna á götunni alvarlega veikir en hafa ekki komist í kast við lögin?