Meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:42:35 (2181)

2003-11-26 15:42:35# 130. lþ. 35.4 fundur 318. mál: #A meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti ný barnalög vorið 2003 og tóku þau gildi 1. nóvember 2003. Barnalögin breyttu ákvæðum er vörðuðu milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur. Breytingin hafði í för með sér að réttur til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins var bundinn við búsetu í stað þess að vera bundinn rétthafa sem átti framfærslurétt hér á landi.

Tryggingastofnun ríkisins er skylt að fara að lögum og í samræmi við það tilkynnti stofnunin viðskiptavinum sínum og erlendum tengistofnunum um lagabreytinguna og að hún hefði í för með sér breytta framkvæmd. Hefur stofnunin í samræmi við barnalög hætt að greiða meðlag nema rétthafi meðlags sé búsettur hér á landi. Þetta þýðir að Tryggingastofnun ríkisins sér ekki um greiðslur meðlags til hóps foreldra sem býr erlendis. Þess má geta að foreldrar sem búsettir eru í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eiga rétt á milligöngu tryggingastofnana í þessum löndum um greiðslu meðlags samkvæmt Norðurlandasamningi um félagslega aðstoð. Aðrir foreldrar búsettir erlendis geta í einhverjum tilfellum leitað eftir milligöngu stofnana um greiðslu eða leitað beint til framfærsluskylds foreldris.

Undanfarna mánuði hefur heilbr.- og trmrn., í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins, verið að kanna, í kjölfar endurskoðunar á Norðurlandasamningi um almannatryggingar og nýrra dóma hjá dómstól Evrópusambandsins, hvort ástæða sé til að breyta ákvæðum laga um almannatryggingar er snerta meðlagsgreiðslur Tryggingastofnunar. Nokkrir dómar hafa fallið hjá Evrópusambandsdómstólnum þar sem meðlag er talið til bóta í skilningi reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar. Hér á landi hefur meðlag ekki verið talið til bóta í skilningi almannatryggingalaga heldur er eingöngu um að ræða milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags.

Framangreindri könnun ráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins var ólokið þegar barnalögunum var breytt og kom það starfsmönnum ráðuneytisins að óvörum. Frv. til barnalaga hafði ekki verið sent ráðuneytinu til umsagnar á neinu stigi. Það hefði verið æskilegt að fá umsögn ráðuneytisins þannig að unnt hefði verið að kanna hverjar afleiðingar það hefði í för með sér fyrir foreldra íslenskra barna erlendis að breyta lögum.

Herra forseti. Ég hefði talið að betra hefði verið að bíða með breytingar á barnalögum í þessu efni þar til athugun heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnunar ríkisins væri lokið. En þar sem breytingin er orðin að lögum og hefur verið hrint í framkvæmd hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnunar ríkisins til að fara yfir lög og reglugerðir og alþjóðasamninga sem snerta meðlagsgreiðslur Tryggingastofnunar. Ég vænti þess að hópurinn vinni hratt og skili tillögum sem fyrst.

Varðandi síðari spurningu hv. fyrirspyrjanda, sem var ekki bókuð eða hér á blaði þá hef ég ekki þær upplýsingar en ég get aflað þeirra.