Meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:45:48 (2182)

2003-11-26 15:45:48# 130. lþ. 35.4 fundur 318. mál: #A meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég get tekið undir það með honum að ég tel rétt að auðvitað hefði átt að bíða með þessa lagasetningu úr því að staðan var þessi. Ég verð að segja að það hefur verið greinileg handvömm af þinginu að senda ekki málið til umsagnar til heilbrrn.

Það verður að segjast eins og er að upp er komin mjög erfið staða hjá mörgum foreldrum. Ég reyndi að kanna hjá Tryggingastofnun ríkisins hversu margir þetta væru. Ekki voru til upplýsingar um það þar hversu margir þetta eru, en þetta eru mörg hundruð manns því að vitað er að a.m.k. yfir 400 voru að fá þessi bréf. Sjálfsagt eru þetta enn fleiri. Vissulega er erfið staða uppi hjá mörgum foreldrum. Þeir þurfa að fara að leita til viðkomandi tryggingastofnana þar sem þeir geta fengið milligöngu á Norðurlöndunum. Annars staðar þurfa þeir jafnvel að leita til meðlagsgreiðenda til þess að fá greiðslurnar beint sem er oft erfitt fyrir foreldra. Síðan eru það náttúrlega þessi atvik sem ég nefndi áðan þar sem á Norðurlöndunum er greitt lægra gjald heldur en meðlagið er vegna þess að viðkomandi foreldri er ekki í skilum við Innheimtustofnun. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er að setja á laggirnar þennan hóp til að vinna í þessum málum. En ég spyr: Mun hann gera eitthvað til þess að auðvelda foreldrum að fá þessar greiðslur? Samkvæmt upplýsingum mínum gætu liðið nokkrir mánuðir þangað til þessir foreldrar fá greiðslur. Það fer eftir þeirri stöðu sem uppi er í hverju landi. Þeir fá jafnvel mun lægri greiðslur en þeir hafa fengið hingað til ef foreldrið sem er hér heima stendur ekki í skilum. Ég spyr því hæstv. ráðherra aftur um leið og ég þakka honum fyrir svörin: Mun hann gera eitthvað, t.d. að hafa samband við tryggingastofnunina sem við erum í samskiptum við til að flýta þessu ferli eða létta réttindaleit þessara foreldra?