Örorkubætur og fæðingarstyrkur

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:49:44 (2184)

2003-11-26 15:49:44# 130. lþ. 35.5 fundur 319. mál: #A örorkubætur og fæðingarstyrkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um það hvort hann telji eðlilegt að fæðingarstyrkur skerði örorkubætur. Ef hann telur það eðlilegt, hvernig rökstyður hann þá afstöðu?

Ef öryrki verður barnshafandi og eignast síðan barn þá á hann rétt á fæðingarstyrk sem er lægri greiðslan í fæðingarorlofsgreiðslum. En lægri fæðingarstyrkurinn er um 39 þús. kr. í dag. Það er það sama og heimavinnandi foreldri á rétt á eða þeir sem ekki eru á vinnumarkaði.

Litið er á fæðingarstyrkinn sem tekjur í almannatryggingunum og þær skerða bætur öryrkjans. Í almannatryggingunum eru allir bótaflokkar í raun tekjur öryrkja en þeir skerða þó almennt ekki hverjir aðra. Það getur farið eftir aðstæðum hvers og eins hvaða bótaflokk hann fær. Ef einhver býr einn þá getur hann átt rétt á heimilisuppbót. Ef hann flytur inn til fleiri þá missir hann hana o.s.frv. En varðandi öryrkjann sem fær fæðingarstyrkinn þá byrjar fæðingarstyrkurinn að skerða þannig að ef t.d. öryrki með 74 þús. kr. á mánuði á rétt á 39 þús. kr. fæðingarstyrk í sex mánuði, þá kemur þessi styrkur til með að skerða bætur hans, þessar 74 þús. kr., í 12 mánuði um 45% og í því tilfelli sem ég nefni skerðist tekjutryggingaraukinn í heilt ár.

Þar sem örorkubæturnar eru nú tiltölulega lágar og fæðingarstyrkurinn er greiðsla vegna kostnaðar við að eignast barn og alls þess tilkostnaðar sem það hefur í för með sér þá hefur mér fundist mjög óréttlátt að þessar lágu greiðslur skuli skerðast við þennan lága styrk sem reyndar er reglan eins og hún er í dag. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að þessar bætur skerði, þ.e. að fæðingarstyrkurinn skerði örorkulífeyrinn því að öryrkinn á ekki rétt á neinum öðrum greiðslum og þetta eru náttúrlega mjög lágar upphæðir til framfærslu sem og ég nefndi, 74 þús. kr., fyrir öryrkja.

Ég óska eftir svörum hæstv. ráðherra og mun koma frekar inn í rökstuðninginn á eftir.